4. maí 2021
4. maí 2021
Endurhæfing vegna sýkingar af völdum kórónaveirunnar (COVID-19)
Sjúkratryggingar Íslands hafa samið við Reykjalund og Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands (HNLFÍ) um þjónustu fyrir þá sem veikst hafa af COVID-19 og þurfa á endurhæfingu að halda.
Sjúkratryggingar Íslands hafa samið við Reykjalund og Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands (HNLFÍ) um þjónustu fyrir þá sem veikst hafa af COVID-19 og þurfa á endurhæfingu að halda.
Þessir samningar eru liður í fjölbreyttri þjónustu sem, a.m.k. til að byrja með, verður veitt af heilsugæslunni, endurhæfingarstofnunum og sjúkrahúsum í samstarfi við Sjúkratryggingar Íslands. Skipulag þjónustunnar miðar að því að þeir sem á henni þurfa að halda eigi sem greiðastan aðgang að endurhæfingu við hæfi. Þannig munu þeir sem þurfa á tiltölulega einfaldri endurhæfingu að halda eiga aðgang að henni innan heilsugæslunnar en þeir sem þurfa sérhæfða þjónustu fá hana á Reykjalundi og á Heilsustofnun. Verið er að kanna möguleika á að bjóða sambærilega þjónustu á fleiri stöðum. Ef sérlega umfangsmikillar eða flókinnar þjónustu er þörf verður hún veitt á Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri í samráði við COVID-göngudeildir þessar sjúkrahúsa. Heilsugæslan mun vísa sjúklingum í þessi sérhæfðu úrræði en einnig geta sérgreinalæknar á sjúkrahúsum og einkastofum sent tilvísanir til Reykjalundar og Heilsustofnunar.
Á þessu stigi er þekking á endurhæfingu sjúklinga sem veikst hafa af COVID takmörkuð. Ekki liggja fyrir áreiðanlegar upplýsingar um t.d. hlutfall sjúklinga sem þurfa á endurhæfingu að halda né upplýsingar um það hvaða einkenni kalla helst á endurhæfingarþjónustu. Alvarleiki veikinda við sýkingu af völdum kórónuveirunnar segir ekki endilega til um þörf fyrir endurhæfingu. Þjónustan verður skipulögð út frá einkennum hvers um sig. Sérstök áhersla verður lögð á greinargóða skráningu á meðferðarmarkmiðum og ítarlegt mat á árangri þannig að unnt verði að meta áhrif meðferðar með skipulegum hætti. Á grundvelli þess mats, svo og niðurstaðna erlendra rannsókna, verður þjónustan þróuð frekar. Í ljósi þessa er sérlega mikilvægt að þjónustan sé vel skipulögð og að þeir sem að henni koma hafi með sér ríkt samráð. Reiknað er með að skipulag þjónustunnar verði endurskoðað í haust.