Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

16. desember 2025

EASA kallar eftir ábendingum um einföldun regluverks í flugmálum

Flugöryggisstofnun Evrópu (EASA) hefur sett af stað verkefni um einföldun regluverks.

Markmið verkefnis um einföldun regluverks (e. Rule Simplification Programme) er að nútímavæða og einfalda regluverk á sviði flugmála, án þess að dregið sé úr ströngum kröfum um flugöryggi. Markmið þess er jafnframt að styðja við nýsköpun og samkeppnishæfni í flugi.

Mikilvægur þáttur í verkefninu er að afla innsýnar frá hagaðilum til að greina tækifæri til umbóta og forgangsraða aðgerðum sem stuðla að einfaldara og skilvirkara regluverki.

Í því skyni hefur EASA opnað rafræna könnun sem má finna hér.

Markmið könnunarinnar er að safna ábendingum um áskoranir í gildandi regluverki og tillögur að einföldun. Hún tekur meðal annars til:

  • helstu sviða og reglna,

  • ákvæða sem þarfnast skýrari útfærslu,

  • tillagna að úrbótum á reglum, ferlum eða eftirliti,

  • væntanlegs ávinnings, svo sem aukins öryggis, hagkvæmni eða nýsköpunar.

Samgöngustofa hvetur alla hagaðila í flugi til að taka þátt og einnig að dreifa könnuninni sem víðast innan flugsamfélagsins, til að tryggja sem mesta þátttöku.

Könnunin er opin til loka árs 2025. Þekking og þátttaka hagaðila er lykilatriði í mótun regluumhverfis sem er bæði öruggt og skilvirkt.

Samgöngustofa þakkar fyrir áframhaldandi samstarf um eflingu flugöryggis.