Fara beint í efnið

29. nóvember 2024

Dýrmætur vettvangur til að styðja við nýsköpun í menntun og heilbrigðisþjónustu

Sjöunda norræna ráðstefnan fyrir kennara í hjúkrunarfræði haldin með góðum árangri á Akureyri.

NFNE 2024

Dagana 11.–13. nóvember 2024 fór fram sjöunda norræna ráðstefnan fyrir kennara í hjúkrunarfræði (Nordic Forum for Nurse Educators 2024) fram á Akureyri. Ráðstefnan var haldin af Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasviði Háskólans á Akureyri í samstarfi við Sjúkrahúsið á Akureyri og NORDPLUS MEDICO-netið og sameinaði kennara, fagfólk og fræðimenn frá Norðurlöndum og Eystrasaltslöndum.

Tækni í hjúkrunarmenntun í brennidepli

Rauður þráður í gegnum fyrirlestra ráðstefnunnar voru áhrif tækni á menntun hjúkrunarnema og þátttakendur fengu einstakt tækifæri til að kynna sér nýjustu strauma á þessu sviði. Meðal lykilfyrirlesara voru Dr. Hafsteinn Einarsson, dósent í tölvunarfræði við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands, sem fjallaði um gervigreind í hjúkrunarmenntun, og Helena Sigurðardóttir, kennsluráðgjafi við Háskólann á Akureyri, sem lagði áherslu á hvernig stafrænar lausnir geta styrkt kennsluaðferðir. Þá voru flutt fjölbreytt erindi um tækni, námsumhverfi og þróun kennslufræða og skemmtilegar umræður áttu sér stað.

Sérstaða Akureyrar í menntun og heilbrigði

Ráðstefnan undirstrikaði mikilvægi samvinnu milli menntastofnana og heilbrigðiskerfisins og var Sjúkrahúsið á Akureyri í lykilaðstöðu sem bakhjarl viðburðarins. Samvinna SAk og Háskólans á Akureyri á sviði samþættingar tækni við menntun og heilbrigðisþjónustu hefur sýnt sig og sannað.

Tengslamyndun og framtíðarsýn

Ráðstefnan skapaði vettvang fyrir kennara, fræði- og fagfólk til að efla samstarf og miðla reynslu. Þátttakendur lýstu ánægju sinni með að ræða áskoranir og tækifæri sem fylgja tæknivæðingu í heilbrigðismenntun. Gestir frá Norðurlöndum og Eystrasaltslöndum lögðu áherslu á mikilvægi þess að deila góðum starfsháttum og nýjungum á þessu sviði.

Vel heppnuð ráðstefna

Ályktanir ráðstefnunnar drógu fram mikilvægi nýsköpunar í hjúkrunarmenntun og þörfina á öflugu samstarfi milli mennta- og heilbrigðisstofnana. Ráðstefnan sýndi vel hvernig smærri staðir geta orðið að miðpunkti framsækinna umræðna og þróunar á alþjóðlegum vettvangi.

„Við erum afar ánægðar með að Akureyri hafi verið valin til að halda þessa ráðstefnu,“ sögðu Þórhalla Sigurðardóttir, sérfræðingur í bráðahjúkrun á SAk og aðjúnkt við HA og Kolbrún Sigurlásdóttir, verkefnastjóri klínísks náms í hjúkrun við HA. „Þetta er dýrmætur vettvangur til að styðja við nýsköpun í menntun og heilbrigðisþjónustu.“

Viðburðurinn markar tímamót fyrir hjúkrunarmenntun á Norðurlöndum og undirstrikar gildi þess að nýta tækni til að bæta menntun og starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga.

NFNE 2024 hópurinn