Fara beint í efnið

10. júlí 2023

Drónaflug við eldgosið á Reykjanesi

Nú þegar eldgos er hafið að nýju á Reykjanesi vill Samgöngustofa, að gefnu tilefni, árétta reglur sem gilda um drónaflug.

Dróni á flugi við eldsumbrot

Nú þegar eldgos er hafið að nýju á Reykjanesi vill Samgöngustofa, að gefnu tilefni, árétta reglur sem gilda um drónaflug. Þær eru settar til að tryggja öryggi, t.d. aðgreiningu dróna og annarra loftfara:

  • Drónar skulu EKKI fljúga hærra en 120 m yfir jörðu

  • Drónar skulu víkja fyrir mönnuðum loftförum

  • Dróna má ekki fljúga utan sjónsviðs stjórnanda hans

  • Umráðandi dróna ber ábyrgð á því tjóni sem kann að hljótast af notkun hans

  • Til dróna í atvinnuskyni eru gerðar frekari kröfur, til dæmis um skráningu

Verði vart við brot sem geta stefnt öryggi í hættu gæti þurft að grípa til þess að setja verulegar takmarkanir eða bann við drónaflugi við virka eldstöð.


Rannsóknarflug í forgangi

Við eldgos má búast við reglubundnu rannsóknarflugi flugvéla og þyrlna á vegum stjórnvalda við eldstöðina. Slíkt flug er í þágu almannavarna og vísinda og mun njóta forgangs fram yfir annað flug.

Til að tryggja öryggi verður svæði skilgreint sem hættu- eða haftasvæði fyrir starfrækslu flugvéla og þyrlna. Samhliða þessu verður skilgreint bannsvæði fyrir dróna á meðan rannsóknarflugið fer fram. Hætt er við að stuttur fyrirvari verði á slíku og mun umfang og gildistími markast af aðstæðum hverju sinni.