15. nóvember 2022
15. nóvember 2022
Þessi frétt er meira en árs gömul
Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í málum nr. 25133/20 og 31856/20
Mannréttindadómstóll Evrópu kvað upp í dag dóm í málum tveggja einstaklinga sem kvörtuðu yfir broti á 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu

Mannréttindadómstóll Evrópu kvað upp í dag dóm í málum tveggja einstaklinga sem kvörtuðu yfir broti á 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
Foreldrar, sem sviptir höfðu verið forsjá tveggja barna sinna, kvörtuðu til Mannréttindadómstóls Evrópu og töldu að brotið hefði verið gegn rétti þeirra til fjölskyldulífs, sem varið er af 8. gr. mannréttindasáttmálans.
Mannréttindadómstóllinn taldi að ákvörðunin um forsjársviptingu vegna vanhæfni foreldranna til að sinna uppeldisskyldum sínum sem skyldi og að teknu tilliti til óska barnanna sjálfra um að vera áfram í fóstri, félli undir svigrúm ríkisins til mats. Dómstóllinn taldi ákvörðun um forsjársviptingu ekki hafa byggst á ákæru um kynferðisofbeldi, sem faðirinn var sýknaður af, heldur á ítarlegum gögnum sérfræðinga, meðal annars matsgerð dómkvadds matsmanns, sem foreldrarnir hefðu ekki óskað yfirmats á. Féllst dómstóllinn ekki á það með kærendum að aðgerðir barnaverndar hefðu gengið lengra en nauðsynlegt hefði verið og í því sambandi var bent á að stjórnvöld hefðu reynt vægari inngrip áður en gripið hefði verið til forsjársviptingar, en án árangurs. Þá er bent á það í dóminum að í málum þar sem fjallað er um réttindi barna sé ekki gerð krafa um að dómstólar hafi staðfest sök í sakamáli, heldur skuli það sem barni er fyrir bestu ávallt hafa mest vægi. Mannréttindadómstóllinn taldi enn fremur að málsmeðferð hafi verið forsvaranleg og í samræmi við málsmeðferðarreglur. Var niðurstaðan sú að íslenskir dómstólar hefðu tekið vel ígrundaða og nauðsynlega ákvörðun með hagsmuni barnanna að leiðarljósi. Var því ekki talið að um brot gegn 8. gr. mannréttindasáttmálans væri að ræða.
Dóminn má nálgast í heild sinni á heimasíðu Mannréttindadómstóls Evrópu.