Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

28. september 2022

Þessi frétt er meira en árs gömul

Dómur Hæstaréttar Íslands nr. 24/2022

Dómur Hæstaréttar í málinu nr. 24/2022: Þrotabú DV ehf. gegn íslenska ríkinu

Dómur Hæstaréttar 28. september 2022 í máli nr. 24/2022: Þrotabú DV ehf. gegn íslenska ríkinu.

REIFUN
Þrotabú D höfðaði mál á hendur Í og krafðist riftunar á tveimur greiðslum sem inntar voru af hendi af þriðja aðila til Í vegna skulda D og námu samtals 125.946.684 krónum. Var annars vegar um að ræða greiðslu að fjárhæð 85.000.000 krónur en hins vegar að fjárhæð 40.946.684 krónur. Beiðni D um áfrýjunarleyfi var afmörkuð við úrlausn um riftun greiðslunnar að fjárhæð 85.000.000 krónur og var leyfið veitt um þau atriði sem leyfisbeiðnin var reist á. Í áfrýjunarstefnu og gagnáfrýjunarstefna var sakarefnið aftur á móti ekki afmarkað með þeim hætti heldur tók til beggja krafnanna. Með vísan til 3. mgr. 177. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála var heimild Í til gagnáfrýjunar ekki talin sæta takmörkunum hvað sem leið mögulegri afmörkun áfrýjunar í aðalsök á grundvelli áfrýjunarleyfis. Voru því kröfur vegna beggja greiðslnanna teknar til efnismeðferðar. Í málinu byggði þrotabúið á því að umræddar greiðslur hefðu rýrt greiðslugetu D verulega og væru því riftanlegar á grundvelli 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá var byggt á því að greiðslurnar hefðu á ótilhlýðilegan hátt verið Í til hagsbóta á kostnað annarra og leitt til þess að eignir D voru ekki til reiðu til fullnustu krafna kröfuhafa og því jafnframt riftanlegar á grundvelli 141. gr. sömu laga. Fram kom í dómi Hæstaréttar að við mat á skilyrðum riftunar samkvæmt XX. kafla laga nr. 21/1991 yrði fyrst og fremst tekið mið af því hvort og þá að hvaða marki ráðstöfun hefði haft áhrif á fjárhag þrotamanns og þar með hagsmuni og jafnræði kröfuhafa hans. Þá yrði að sýna fram á að þau verðmæti sem ráðstöfun lyti að hefðu ella runnið til skuldara. Sönnunarbyrðin um að framangreindar aðstæður væru fyrir hendi hvíldi á þrotabúi D. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að greiðsla að fjárhæð 85.000.000 krónur hefði fallið utan utan tímamarka 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 og því kæmi riftun á greiðslunni á grundvelli þeirrar lagagreinar ekki til álita. Hvað varðaði riftun greiðslunnar á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991 kom fram í dóminum að D hefði hvorki sannað að umrædd greiðsla, sem fjármögnuð var af auknu hlutafé í P, hefði borist D né verið félaginu á annan hátt aðgengileg eða til ráðstöfunar. Þá hefði ekki verið sýnt fram á að greiðslan eða andvirði hennar hefði runnið til D hefði ekki komið til ráðstöfunar hennar með umræddum hætti. Væri því ekki unnt að leggja til grundvallar að um ótilhlýðilega ráðstöfun hafi verið að ræða sem hefði leitt til þess að eignir D hefðu ekki verið til reiðu til fullnustu krafna kröfuhafa félagsins eða leitt til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, sbr. áskilnað 141. gr. Hvað varðaði greiðsluna að fjárhæð 40.946.684 krónur var óumdeilt að hún hefði borist Í af bankareikningi P, þáverandi móðurfélags D, og í kjölfarið færð sem skuld D við P í bókhaldi þess síðarnefnda. Nokkrum dögum síðar hefðu svo tvær greiðslur borist af bankareikningi D inn á bankareikning móðurfélagsins, samtals að fjárhæð 40.339.542 krónur. Var lagt til grundvallar, hvað sem leið tilhögun greiðslunnar, að P hefði lánað D upphæðina og D hefði endurgreitt stærstan hluta þess láns. Greiðsla skuldarinnar hefði því haft í för með sér að handbært fé D rýrnað um sömu fjárhæð með tilheyrandi áhrifum á greiðslugetu þess en óumdeilt var að greiðslan hefði farið fram þegar minna en sex mánuðir voru til frestdags. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms var staðfest sú niðurstaða hans að uppfyllt væru skilyrði 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 til þess að greiðslunni yrði rift. Þá var jafnframt staðfest sú niðurstaða að Í yrði á grundvelli 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 gert að endurgreiða þrotabúi D fé sem samsvaraði greiðslu D til P eða 40.339.542 krónum enda ekki runnið hærri fjárhæð frá DV ehf.