Fara beint í efnið

23. ágúst 2024

Dagskrá Vísindadags Heilbrigðisvísindastofnunar HA og SAk birt

Dagurinn haldinn í 15 skipti fimmtudaginn 19. september í fundarherberginu Kjarna á nýjum tengigangi SAk og í streymi.

Vísindadagur SAk og HHA 2024

Dagskráin er að vanda metnaðarfull enda hefur vísindastarf innan SAk stigvaxið síðustu árin. Heiðurserindið í ár heldur Dr. Árún K. Sigurðardóttir prófessor í hjúkrunarfræði við HA og sérfræðings í sykursýki og langvinnum sjúkdómum.

Á dagskrá eru fjölmörg erindi svo sem um þróun líkamsþyngdar barnshafandi kvenna við upphaf meðgöngu á Norðurlandi 2004-2022, heilsufar grunnskólabarna á Akureyri, heilsutengd lífsgæði fullorðinna einstaklinga með bláæðasár og geðlyfjanotkun kvenna á meðgöngu svo eitthvað sé nefnt. Eftir hádegi verður gervigreind í vísindum og vinnu í sérstökum fókus auk þess sem sagt verður frá rannsókn á streitu, kulnun og bjargráðum til handa hjúkrunarfræðingum í heilsugæslu og á sjúkrahúsi, öndunarmælingar á íslenskum heilsugæslustöðvum og gæði útkalla með læknismannaðri sjúkraflugvél frá Akureyri. Þá mun einnig gefast gott tækifæri til umræðna og spjall um það sem efst er á baugi í vísindavinnu á SAk.

„Vísindadagurinn er ávallt hátíðlegur og einskonar uppskeruhátíð. Við hlökkum mikið til að sjá og heyra afrakstur vísindafólksins okkar sem vinnur ötullega að rannsóknum samhliða klínískum störfum,“ segir Laufey Hrólfsdóttir, deildarstjóri mennta- og vísindadeildar.