5. júlí 2023
5. júlí 2023
Bygging nýrrar legudeildar við Sjúkrahúsið á Akureyri í augsýn
Fjármálaráðherra hefur gert breytingar á skipulagi framkvæmda er varða sérhæfða sjúkrahúsþjónustu og er NLSH ohf. falið að fara með verklegar framkvæmdir er varða uppbyggingu á innviðum sérhæfðrar sjúkrahúsþjónustu
Fjármálaráðherra hefur gert breytingar á skipulagi framkvæmda er varða sérhæfða sjúkrahúsþjónustu og er NLSH ohf. falið að fara með verklegar framkvæmdir er varða uppbyggingu á innviðum sérhæfðrar sjúkrahúsþjónustu. NLSH ohf. mun því vinna að nýrri legudeildarbyggingu fyrir Sjúkrahúsið á Akureyri í samstarfi við sjúkrahúsið. Um er að ræða endurskoðun á frumathugun á byggingu legudeilda sem er gert ráð fyrir að ljúki á næstu mánuðum. Í framhaldi af því verður farið í útboð á fullnaðarhönnun nýju byggingarinnar og mun sú vinna fara fram síðar á þessu ári. Þá mun NLSH ohf. einnig tryggja að fram fari ástands-, eiginleika- og hentugleikaskoðun á eldri byggingum sjúkrahússins.
SAk skrifaði nýlega undir ráðgjafasamning við NLSH ohf. og hefur þannig hafið undirbúning sín megin m.t.t. notendahópa, verkefnastjóra og annarra sem að verkefninu koma. Við ætlum að verkefnið gangi vel og sjáum fyrir okkur að innan fimm ára verði ný legudeildarbygging risin og breytingar gerðar á legudeildarstarfsemi í eldri byggingum spítalans.