25. júlí 2024
25. júlí 2024
Breytingar á örorku- og endurhæfingarlífeyri taka gildi 1. september 2025
Forstjóri TR Huld Magnúsdóttir var í viðtali á Rás1 í morgun um breytingar á örorku- og endurhæfingarlífeyriskerfinu. Í upphafi sagði hún meðal annars að í raun væri um að ræða nýja hugsun og nálgun með þessum breytingum til að fá fleiri til virkni þeim og samfélaginu til góða.
Huld fór yfir helstu atriði sem nýju lögin hafa í för með sér, en fyrir liggur að öll sem eru á greiðslum hjá TR og verða með réttindi 1. september vegna örorku- og eða endurhæfingar verða færð í nýtt kerfi. TR mun upplýsa viðskiptavini sína með góðum fyrirvara um yfirfærsluna.
Helstu breytingar samkvæmt nýjum lögum og verkefni hjá TR eru:
Breytingar á greiðsluflokkum – þannig að til verður nýr örorkulífeyrir og nýr hlutaörokuklífeyri. Endurhæfingarlífeyrir verður sjúkra- og endurhæfingarlífeyrir.
Fjárhæðir munu breytast, þannig að flestar hækka. Flestir greiðsluþegar munu fá hærri greiðslur en ekki alveg allir.
Meiri hvatar til atvinnuþátttöku en nú eru og meiri tími gefinn til endurhæfingar.
Ný hugsun varðandi greiðslur fyrir einstaklinga þegar beðið er meðferðar og í lok endurhæfingar þegar verið er að leita að vinnu.
Meiri samvinna þjónustuaðila sem sinna endurhæfingu.
Sett verða upp samhæfingarteymi um allt land.
Samþætt sérfræðimat kemur til sögunnar í stað núverandi örorkumats.
Búin verður til þjónustugátt fyrir alla þjónsutuaðila til að auðvelda samstarf og samskipti þeirra í milli.
Nýr virknistyrkur verður til og fólk fær aðstoð við atvinnuleit.
Yfirfærsla viðskiptavina 1. september 2025 yfir í nýtt kerfi og kynning á því ferli til þeirra.
Fræðsla og kynning fyrir fjölmarga fagaðila áður en ný lög taka gildi.
Rannsókn á ástæðum fjölda kvenna 50 ára og eldri á örorku
Huld var síðan spurð nánar um nokkur atriði svo sem um endurhæfingu, samstarf við sveitarfélög, fjölda á örorku. Í framhaldi af þeirri umræðu kom meðal annars fram að TR er að undirbúa rannsókn á ástæðum þess að konur 50 ára og eldri eru mjög fjölmennar í hópi örorkulífeyrisþega. Einkum er áberandi að í aldurshópnum 63 – 66 ára eru 25% kvenna á Íslandi á öroku. Rannsóknin verður unnin af Félagsvísindastofnun og koma félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, velferðarvaktin og Vinnueftirlitið einnig að rannsókninni.
Hlekkur á viðtal við forstjóra TR í morgun á ruv
Hér er hlekkur á viðtalið við forstjóra TR í morgun um breytingarnar á öroku- og endurhæfingarlífeyriskerfinu sem taka gildi 1. september 2025. Viðtalið hefst á mínútu 53.15.