11. september 2025
11. september 2025
Breytingar á Innskráningarþjónustu til að auka öryggi
Til að auka öryggi við auðkenningu og vernda gögn notenda enn frekar gerir Stafrænt Ísland breytingar á einskráningu (e. Single Sign-On eða SSO) í Innskráningarþjónustu sinni.
Frá og með 23. september næstkomandi verður einskráning ekki lengur sjálfgefið virkt fyrir alla notendur. Þess í stað þurfa stofnanir sem hafa innleitt Innskráningarþjónustu Ísland.is að velja sérstaklega að virkja einskráningu kjósi þeir það.
Hvernig virkar Innskráningarþjónustan í dag?
Einskráning (e. Single Sign-On) veitir notendum möguleika á að skrá sig inn einu sinni og fá þannig aðgang að mörgum kerfum án frekari innskráninga.
Til dæmis: notandi skráir sig inn á Mínar síður Ísland.is en getur svo í sama vafra opnað t.d. Heilsuveru eða Þjónustusíðu Skattsins án þess að auðkenna sig aftur. Þetta kallast einskráning.
Ástæða breytingarinnar
Breytingin er gerð til að tryggja aukið öryggi notenda þar sem mögulegur öryggisveikleiki hefur verið greindur sem gæti haft áhrif á auðkenningu í gegnum einskráningu. Breytingin felst í því að einskráning verður ekki lengur virk sjálfkrafa, heldur geta opinberir aðilar valið að virkja hana sjálfir.
Áhrif á opinbera aðila
Stofnanir sem vilja ekki nýta einskráningu: þurfa ekki að gera neinar breytingar
Stofnanir sem vilja áfram nýta einskráningu við auðkenningu: þurfa að uppfæra þær stillingar samkvæmt leiðbeiningum
Áhrif á einstaklinga og fyrirtæki
Notendur sem nýta sér stafræna opinbera þjónustu munu finna fyrir því að í sumum tilfellum þurfa þeir að skrá sig inn aftur á milli kerfa.
Í dæminu hér að ofan mun notandi sem hefur nú þegar auðkennt sig inn á Mínar síður Ísland.is ekki geta farið beint inn á Heilsuveru án þess að skrá sig aftur inn.
Opinberir aðilar eru hvattir til að skoða núverandi notkun á Innskráningarþjónustu Ísland.is og meta og ákveða hvort þeir vilji halda einskráningu áfram eða ekki.
Frekari upplýsingar um breytinguna er hægt að óska eftir í gegnum island@island.is