Fara beint í efnið

4. júní 2024

Bólusetningar gegn kíghósta og mislingum 2024

Stjórnvöld hafa samþykkt útvíkkun á forgangshópum vegna kíghósta- og mislingabólusetninga vegna kíghóstafaraldurs og endurtekins innflutnings mislinga í tengslum við stóra mislingafaraldra í Evrópu undanfarna mánuði.

Bólusetning

Í þessu felst að tilteknir hópar fullorðinna geta fengið bóluefnin sér að kostnaðarlausu að minnsta kosti út þetta ár.

Kíghóstabólusetningar

  • Venjubundnir forgangshópar fá bóluefni áfram sér að kostnaðarlausu;

    • barnshafandi á öðrum til þriðja þriðjungi meðgöngu, fyrsta bólusetning barnsins,

    • börn búsett hér fá bólusetningu samkvæmt áætlun.

  • Við bætist að fullorðið heimilisfólk barna í eftirfarandi áhættuhópum geta fengið bólusetningu sér að kostnaðarlausu ef tími er kominn á örvun (10 ár frá síðustu bólusetningu).

    • Væntanleg fæðing barns inn á heimilið á næstu 2-3 mánuðum.

    • Fyrirburar (athuga sérstaklega ef barn fæddist áður en bólusetning var gefin á meðgöngu) sem ekki hafa fengið að minnsta kosti 3 skammta af kíghóstabóluefni samkvæmt áætlun og þar af að minnsta kosti einn skammt eftir 11 mánaða aldur.

    • Börn undir 6 mánaða aldri óháð bólusetningastöðu barnsins

    • Börn 6-12 mánaða sem hafa ekki fengið að minnsta kosti 2 skammta af kíghóstabóluefni samkvæmt áætlun.

Heilsugæslur og aðrir sem sinna bólusetningum samkvæmt þessu þurfa að panta sérstaklega samningsbóluefni sóttvarnalæknis frá dreifingaraðila eins og gert er við almennar bólusetningar barna, ekki er hægt að endurgreiða bóluefni sem keypt er gegn lyfseðli.

Bóluefni sem má nota fyrir fullorðna samkvæmt ofangreindu eru Boostrix (bóluefni gegn barnaveiki, stífkrampa og kíghósta) eða Repevax (bóluefni gegn barnaveiki, stífkrampa, kíghósta og mænusótt). Önnur bóluefni sem eru á almennum markaði eru ekki greidd af sóttvarnalækni og bóluefni fást ekki endurgreidd ef bólusetning hefur þegar farið fram.

Mislingabólusetningar

  • Venjubundnir forgangshópar fá bóluefni áfram sér að kostnaðarlausu;

  • Við bætist að fólk fætt 1975-1987 sem ekki hefur þegar fengið tvo skammta af mislingabóluefni og hyggur á ferðalag innan 6 vikna á árinu 2024 getur fengið einn skammt af MMR bóluefni sér að kostnaðarlausu.

Fólk fætt fyrir 1975 fær ekki bólusetningu samkvæmt þessu. Bóluefni þarf að forgangsraða til þeirra hópa sem vitað er að hafa ófullnægjandi ónæmi gegn mislingum og má ekki bólusetja aðra hópa meðan þetta ástand varir.

Fólk fætt 1988 og síðar sem var bólusett samkvæmt íslenskri áætlun ætti að hafa þegar fengið tvo skammta af MMR en miðlægur bólusetningagrunnur nær ekki svo langt aftur. Fólk fætt 1988-2003 sem hefur rökstuddan grun um að hafa ekki fengið bólusetninguna, til dæmis fólk með eggjaofnæmi sem var um tíma talið frábending fyrir bólusetningu, þarf að ráðfæra sig við sína heilsugæslu.

Heilsugæslur og aðrir sem sinna bólusetningum samkvæmt þessu þurfa að panta sérstaklega samningsbóluefni sóttvarnalæknis frá dreifingaraðila eins og gert er við almennar bólusetningar barna, ekki er hægt að endurgreiða bóluefni sem keypt er gegn lyfseðli.

Bóluefni sem má nota fyrir fullorðna samkvæmt ofangreindu M-M-RVaxPro. Önnur bóluefni sem fást ef til vill á almennum markaði eru ekki greidd af sóttvarnalækni og bóluefni fæst ekki endurgreitt ef bólusetning hefur þegar farið fram.

Sóttvarnalæknir

Til að fá upplýsingar um bólusetningar, hafðu samband við þína heilsugæslustöð.