Fara beint í efnið

23. janúar 2023

Birting erinda í stafrænu pósthólfi - Ísland.is

Fiskistofa hefur í auknum mæli nýtt sér stafrænt pósthólf Ísland.is við sendingu erinda til viðskiptavina Fiskistofu.

viti

Frá og með 1. febrúar 2023 mun Fiskistofa hætta að senda tölvupóst vegna tilkynninga um að skip hafi veitt umfram aflaheimildir og verða þær tilkynningar sendar í stafrænt pósthólf útgerða. Allar útgerðir munu fá slíkar tilkynningar í stafrænt pósthólf á Ísland.is, óháð því hvort útgerðir hafi skráð netfang hjá Fiskistofu. Einnig munu tilkynningar um veitingu vilyrða vegna aflaskráningar á opinberum sjóstangaveiðimótum og tilkynningu um niðurfellingu veiðileyfa eingöngu vera send í stafrænt pósthólf á Ísland.is.

Vakin er athygli á því að þegar gögn eru aðgengileg í pósthólfi teljast þau birt viðtakanda skv. 7. gr. laga um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda nr. 105/2021.

Frá og með 1. febrúar nk. munu eftirfarandi gögn og erindi frá Fiskistofu einungis vera send á stafrænt pósthólf viðskiptavina:

  1. Leiðréttingar vegna veiðigjalda

  2. Leiðbeiningar frá veiðieftirliti vegna fiskveiða

  3. Upplýsingar um eftirstöðvar veiðiskyldu

  4. Tilkynningar um upphaf máls

  5. Ákvarðanir um stjórnsýsluviðurlög

  6. Tilkynningar um leiðréttingu á aflaskráningu

  7. Tilkynningar um veiðigjöld

  8. Tilkynningar um úthlutun aflamarks

  9. Tilkynningar um umframafla á fiskveiðiári og álagningu

  10. Tilkynningar um umframafla á strandveiðum og álagningu

  11. Leiðbeiningar til veiðifélaga

  12. Tilkynningar um að skip hafi veitt umfram aflaheimildir

  13. Veiting vilyrða vegna aflaskráningar á opinberum sjóstangaveiðimótum

  14. Niðurfelling veiðileyfa

Fiskistofa beinir þeim tilmælum til viðskiptavina sinna að fylgjast vel með pósthólfinu og gæta þess að hnipp þjónusta pósthólfsins sé virk, en með henni eru viðtakendur látnir vita með tölvupósti ef nýtt skjal bíður þeirra í pósthólfi.

Samþætting við pósthólf Ísland.is er stórt skref í stafrænum samskiptum við viðskiptavini Fiskistofu og minnkar pappírsnotkun í samræmi við græn skref stofnunarinnar.