Fara beint í efnið

9. nóvember 2023

Birna Íris Jónsdóttir ráðin framkvæmdastjóri Stafræns Íslands

Birna Íris Jónsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Stafræns Íslands, en starfið var auglýst í ágúst síðastliðnum.

birna_iris_framkvstj_stafraent_island

Efling stafrænnar þjónustu er eitt af forgangsmálum stjórnvalda og markvisst er unnið að því að viðhalda stöðu Íslands í fremstu röð í stafrænni þjónustu með tilheyrandi samfélagslegum ávinningi. Hlutverk Stafræns Íslands er að styðja við stafræna vegferð stofnana og sveitarfélaga. Meðal verkefna Stafræns Íslands er að þróa hugbúnaðarlausnir sem styðja við það hlutverk ásamt því að þróa og reka Ísland.is, Ísland.is appið, Mínar síður Ísland.is og Stafræna pósthólfið. Einnig að tryggja virkni þjónustu þvert á landamæri í alþjóðlegu samstarfi. Stafrænt Ísland er starfseining innan fjármála- og efnahagsráðuneytisins en vinnur þvert á hið opinbera og starfar náið með ráðuneytum, stofnunum og sveitarfélögum að stafrænum umbótum til að tryggja skýr, einföld og hraðvirk samskipti.

Birna Íris er tölvunarfræðingur frá Háskóla Íslands og er jafnframt með MBA og nám á meistarastigi í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík, auk diplómu í jákvæðri sálfræði frá EHÍ.  Undanfarin tvö ár hefur Birna starfað við ráðgjöf á sviði stefnumótunar og upplýsingatækni, auk þess að kenna námskeið í verkefnisstjórnun á meistarastigi við Háskólann í Reykjavík.  Þar áður starfaði hún sem forstöðumaður UT reksturs og öryggis  hjá Össur hf, rekstrarstjóri UT og stafrænnar þróunar hjá Högum og forstöðumaður upplýsingatækni hjá Sjóvá.

Lesa frétt um ráðningu Birnu Írisar á vef Stjórnarráðsins