12. desember 2025
12. desember 2025
Betri eftirfylgni með tilkomu Clozapine klíníkur
Rannveig Þöll Þórsdóttir, sérfræðingur í hjúkrun í geðrofs- og samfélagsteymi (GoS teymi) á Landspítala, hefur undanfarin ár byggt upp Clozapine klíník á göngudeild geðrofssjúkdóma á Kleppi. Þjónustan miðar að því að bæta öryggi, líkamlega heilsu og lífsgæði fólks sem tekur geðrofslyfið clozapine. Um 110 einstaklingar þiggja þjónustu hjá klíníkinni.

Að sögn Rannveigar kom hugmyndin að stofnun klíníkurinnar frá Rannveigu Pálsdóttur geðlækni og fékk hún strax mikinn stuðning stjórnenda. Samskonar þjónusta þekkist víða erlendis og hefur gefið góða raun. Vinnuhópur skipaður hjúkrunarfræðingum og læknum í GoS teyminu mótaði ferla og verklag og Rannveig Þöll stýrði innleiðingunni. Klíníkin var síðan opnuð14. febrúar 2023.
Hjúkrunarstýrð klíník
Clozapine er annarrar kynslóðar geðrofslyf sem getur verið mjög áhrifaríkt og haft marktæk áhrif á bata og lífsgæði hjá sumum en krefst náinnar eftirfylgdar vegna mögulegra alvarlegra en þó sjaldgæfra aukaverkana. Þótt fólk með alvarlegar geðrænar áskoranir hafi almennt 10–20 árum skemmri lífslíkur vegna líkamlegra sjúkdóma en almenningur, benda sumar rannsóknir til að fólk sem tekur clozapine hafi betri meðferðarheldni og jafnvel betri langtímahorfur en aðrir einstaklingar með geðrofssjúkdóma. Efnaskiptavandi er þó algengur vandi sem þarf að fyrirbyggja og meðhöndla.
Clozapine klíníkin á Kleppi er hjúkrunarstýrð: skipulögð, samræmd og rekin af hjúkrun í nánu teymissamstarfi við lækna og aðrar faghópar eftir þörfum, t.d. næringarfræðinga og klíníska lyfjafræðinga. Hjúkrunarfræðingarnir Sonja Marý Halldórsdóttir og Hólmfríður Margrét Bjarnadóttir hafa unnið með Rannveigu í klíníkinni og hjúkrunarfræðingar í GoS hafa tekið afleysingar þegar þörf hefur verið á. Unnið er að því að setja verklagslýsingar og gátlista inn í gæðahandbók og er hluti þess efnis nú þegar komið inn sem fólk getur litið á og nýtt sér.
Lífsstílsstuðningur stór hluti þjónustunnar
En hvað er gert í dæmigerðri heimsókn á klíníkina? „Það er farið yfir líðan, daglegt líf, aukaverkanir, blóðgildi, líkamlega heilsu og lífsstílstengda þætti. Mældur er blóðþrýstingur, púls, þyngd, BMI, mittismál og blóðprufa tekin á staðnum með Hemoscreen fari þjónustuþegar ekki í hefðbundnar blóðprufur,“ segir Rannveig. „Lífsstílsstuðningur er fastur og stór hluti þjónustunnar og þar er unnið markvisst að því að stuðla að reglulegri hreyfingu, hollri næringu, góðum svefn, virkni og markmiðum þjónustuþegans.“
Fyrir tilkomu klíníkurinnar var eftirfylgd oft flóknari og verklag ekki staðlað eða samræmt. „Síðan klíníkin hófst viljum við halda því fram að skipulag hafi batnað og mun betri mætingar eru nú í blóðsýnatökur og eftirlit markvissara,“ segir Rannveig.
Samhliða klínískri þjónustu á klíníkinni er í gangi þróun og forprófun á svokallaðri samskapaðri (e. co-production) lífsstílsíhlutun. Að sögn Rannveigar eru vonir bundnar við að íhlutunin geti stutt betur við þróun á Clozapine klíníkinni og stuðlað að bættu heilsufari og betri lífsgæðum þessa hóps.