14. janúar 2026
14. janúar 2026
Berglind Soffía er nýr klínískur næringarfræðingur hjá HSN
Nýverið var Berglind Soffía Ásbjörnsdóttir Blöndal ráðin sem næringarfræðingur hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands.

Berglind er með B.Sc. gráðu í næringarfræði, mastersgráðu í klínískri næringarfræði og doktorspróf í næringarfræði.
Hún hefur farsæla reynslu úr heilbrigðisgeiranum en hún hefur unnið hjá Landspítalanum, Sjúkrahúsinu á Akureyri og Heilsuvernd. Jafnframt hefur hún starfað hjá VIRK og Birtu Starfsendurhæfingu Suðurlands. Samhliða hefur hún verið stundakennari við HÍ og HA síðan 2015.
Klínískir næringarfræðingar hafa mikla sérstöðu hvað varðar þekkingu og þjálfun innan næringarfræðinnar sem eru gríðarlega flókin vísindi hvers mikilvægi getur verið vanmetið.
Sérhæfð næringarráðgjöf er hluti af öflugri heilbrigðisþjónustu
"Skylda okkar klínískra næringarfræðinga er að veita bestu mögulegu meðferð samkvæmt bestu mögulegri þekkingu hverju sinni. Starf mitt snýst um að styðja fólk með mjög ólíkar þarfir, bæði með forvörnum og meðferðum,“ segir hún. „Ég sinni fræðslu og vinn með ýmsum skjólstæðingahópum, til að mynda með börnum, ófrískum konum, fullorðnum, öldruðum og fólki með sértækar heilsufarslegar áskoranir vegna til dæmis veikinda, óþols, ofnæmis eða vannæringar. Þá vinn ég einnig með fólki sem almennt vill breyta matarvenjum eða skoða betur næringu sína fyrir betri heilsu. Ég sé um að sækja um niðurgreiðslu á næringarviðbót hverskonar til Sjúkratrygginga fyrir þá hópa sem ég sinni og fylgi svo þeirri meðferð eftir til að hámarka árangur. Svo er ég einnig ráðgefandi fyrir allar starfstéttir heilsugæslunnar ef næringartengd vandamál eða spurningar koma upp hjá skjólstæðingum stöðvarinnar."
Berglind er frá Siglufirði, en býr núna í Hveragerði með fjölskyldu sinni. Við bjóðum hana hjartanlega velkomna í okkar góða hóp.
Lífsmottó Berglindar: Sýna öllum virðingu, umburðarlyndi og umhyggju og vera bjartsýnn og þolinmóður þá gengur allt svo dásamlega vel!