Fara beint í efnið

26. september 2024

Ávinningur af stafrænum ferlum

Stafrænt Ísland hefur þróað módel sem styður við ávinningsmat stafrænna ferla

setið við tölvu

Stafrænt Ísland hefur unnið að aðferðafræði við að meta ávinning stafrænna ferla. Ávinningurinn er margvíslegur og erfitt getur reynst að leggja fjárhagslega mælikvarða á bætta þjónustu. Hér er gerð tilraun til þess að draga fram ávinning helstu stærða og lögð áhersla á að draga fram breytingar í tíma borgara við að sækja sér þjónustuna.

Ætlunin er að það módel sem sett hefur verið upp geti nýst stofnunum við að áætla ávinning af stafvæðingu ferla ásamt því að nýtast Stafrænu Íslandi í forgangsröðun verkefna. Tækifæri fyrir stofnanir að draga fram sína kostnaðarsömustu ferla, bera saman með samræmdum hætti og lyfta upp þeim tækifærum sem stafvæðing ferla býður upp á.

Verkefnið byggir á hugmyndafræðinni um kostnað á hverja afgreiðslu þar sem reynt er að leggja mat á kostnað við hverja afgreiðslu, stafræna eða hefðbundna.

Við þróun á reiknivélinni var farið yfir umtalsverðan fjölda stafrænna ferla og þær tölur sem notaðar eru sem forsendur útreikninga eiga að endurspegla meðaltalstölur.

Útreikningarnir draga fram breytingar við að færa feril í pappír formi yfir í stafrænan feril þar sem notandinn getur afreitt sig sjálfur. Hér er ekki metinn kostnaður við að veita þjónustu stafrænt við kostnað við eldri aðferð heldur aðeins breyting á tíma og kostnaði við hverja afgreiðslu. Þá er lögð sérstök áhersla á breytingu í tíma borgara við að sækja sér þjónustu með stafrænum hætti.

Ætla má að metinn ávinninngur sé lágmarksáviningur af því að stafvæða ferla þar sem stafvæðingin veitir fjölmörg umbótatækifæri í rekstri stofnana. Til dæmis eru tækifæri í breyttri húsnæðisþörf eða breytingum á innri ferlum ekki tekin með í útreikningum.