Fara beint í efnið

16. júní 2022

Aukning í alvarlegum veikindum vegna COVID-19

Útbreiðsla COVID-19 er vaxandi hér á landi. Nú greinast opinberlega um og yfir 200 manns á dag.

Landlæknir logo

Eins og fram kom í frétt 10. júní sl., er útbreiðsla COVID-19 vaxandi hér á landi. Nú greinast opinberlega um og yfir 200 manns á dag en líklega er fjöldinn meiri því margir greinast með heimaprófi og fá ekki greininguna staðfesta með opinberu prófi. Flestir sem greinast hafa ekki fengið COVID-19 áður en endursmit eru undir 10% af daglegum greindum smitum.

Samfara þessari aukinni útbreiðslu þá hefur orðið veruleg aukning á innlögnum sjúklinga með COVID-19. Nú liggja 27 einstaklingar inni á Landspítala með eða vegna COVID-19. Þar af eru tveir á gjörgæsludeild og einn þarf á aðstoð öndunarvélar að halda. Flestir inniliggjandi sjúklinganna eru eldri en 70 ára en alvarleg veikindi sjást aðallega hjá þeim sem hafa fengið þrjár eða færri bólusetningar. Þetta er í samræmi við niðurstöðu erlendra rannsókna um að fjórði bólusetningarskammtur minnkar verulega líkur á alvarlegum veikindum vegna COVID-19.

Almenningur og sérstaklega þeir sem eru 80 ára eða eldri og þeir sem eru með undirliggjandi sjúkdóma, eru hvattur til að gæta að sínum sóttvörnum þ.e. forðast fjölmenni, halda fjarlægð, þvo og spritta hendur og nota andlitsgrímu þegar sóttvörnum verður ekki við komið.

Einnig eru allir þeir sem eru óbólusettir hvattir til að þiggja bólusetningu. Einstaklingar 80 ára og eldri og heimilismenn á hjúkrunarheimilum eru hvattir til að þiggja fjórða skammt bólusetningar. Yngri einstaklingar sem telja sig geta verið viðkvæma fyrir COVID-19 eru einnig hvattir til að fá fjórða skammt bólusetningarinnar. Bólusetning minnkar verulega líkur á alvarlegum veikindum vegna COVID-19.

Sóttvarnalæknir