3. september 2024
3. september 2024
Aukin þjónusta við einstaklinga með ópíóíðafíkn
Heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórsson, hefur staðfest viðauka við samning Sjúkratrygginga Íslands og SÁÁ um flýtiþjónustu vegna fíknsjúkdóma og snemminngrip fyrir einstaklinga með alvarlega ópíóíðafíkn. Samningur þess efnis var undirritaður í dag við sjúkrahúsið á Vogi.
Viðaukinn felur í sér viðbótarþjónustu sem heilbrigðisstofnanir geta vísað í og þannig aukið aðgengi að mikilvægri meðferð í þeim tilgangi að tryggja tímanlegt aðgengi. Hann er liður í að stytta bið eftir þjónustu ásamt því að auka aðgengi að viðeigandi úrræðum að undangengnu faglegu mati á meðferðarþörf. Með þessum hætti má skapa samfellu milli þjónustuþrepa í heilbrigðisþjónustu og auka samvinnu við aðra þjónustuveitendur. Lagt er upp með að viðaukasamningurinn verði hluti af nýjum heildarsamningi um þjónustu SÁÁ sem stefnt er að taki gildi um áramótin.
Samningurinn er liður í aðgerðum stjórnvalda til að sporna við skaða af völdum ópíóðafíknar sem samþykktar voru í ríkisstjórn. Þar var sérstaklega lagt til að þróuð yrði flýtimóttaka þar sem einstaklingum í bráðum vanda er tryggt aðgengi að gagnreyndri heilbrigðisþjónustu á borð við fráhvarfsmeðferð, vímuefnameðferð eða viðhaldsmeðferð sem mætir þeirra þörfum.
Willum Þór heilbrigðisráðherra segir mjög mikilvægan áfanga felast í þessum samningsviðauka sem feli í sér aukna þjónustu og bætt aðgengi:
Auk þess að fjölga viðhaldsmeðferðum er ánægjulegt að sjá flýtimóttöku raungerast, samvinnu stofnana, Landspítala og SÁÁ fyrir þau sem eru í brýnni þörf á innlögn eða meðferð.
Aukin þjónusta
Tilvísanir í þjónustuna fara í sérstakan farveg innan SÁÁ, með faglegu mati á þörf og aðgengi að viðeigandi þjónustustigi. Jafnframt gerir viðaukinn SÁÁ kleift að auka þjónustu við einstaklinga með ópíóíðafíkn og miðað er við að allt að 450 einstaklingar hafi aðgang að lyfjameðferð við ópíóíðafíkn árlega í göngudeild. Sigurður H. Helgason forstjóri Sjúkratrygginga fagnar þessu viðbótar skrefi sem nú hefur verið tekið
Það er fyrst og fremst ánægjulegt að þessi hópur fái öflugri þjónustu og stuðning sem svo lengi hefur verið beðið eftir.
Undir það tekur Anna Hildur Guðmundsdóttir formaður SÁÁ og bætir við að hann muni efla þjónustu SÁÁ en frekar.
Þessi viðauki gerir okkur kleift að styrkja enn frekar starfið okkar og auka þjónustu. Við fáum betri yfirsýn yfir þörfina fyrir meðferð á öllum stigum og hvernig hún birtist í heilbrigðiskerfinu, auk þess sem hún eykur gagnsæi um hvernig okkur gengur að mæta þessari þörf í góðri samvinnu við Sjúkratryggingar og heilbrigðisyfirvöld.
Liður í aðgerðum stjórnvalda
Umfangsmikil stefnumótun stendur yfir í heilbrigðisráðuneytinu í málaflokknum og er starfshópur að störfum að uppfæra heildarstefnu í áfengis- og vímuvörnum. Sú stefna mun taka til forvarna, meðferðarúrræða, eftirfylgni meðferðar, endurhæfingar og lagaumhverfis. Áhersla er lögð á að stefnan taki mið af mismunandi þörfum hópa með tilliti til meðferðar við fíknisjúkdómi.
Samhliða vinnu starfshópsins er unnið að stöðumati og kortlagningu á þeirri heilbrigðisþjónustu sem er fyrir hendi í dag fyrir fólk sem þarf á meðferð eða endurhæfingu að halda vegna vímuefnavanda. Sú vinna mun styðja við stefnumótun í málaflokknum til framtíðar.