Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

11. nóvember 2025

Aukin samskipti við aðstandendur íbúa á hjúkrunarheimilum eflir gæði þjónustu

Aðstandendur og makar þeirra gegna mikilvægu hlutverki í lífi íbúa á hjúkrunarheimilum. Bæði dætur og synir taka þátt í umönnun, en þarfir og væntingar þeirra til starfsfólks og umönnunar eru mismunandi. Maria Finster Úlfarsson, hjúkrunarfræðingur á HSN á Sauðárkróki, rannsakar þetta efni en hún er nú í doktorsnámi við Háskólann á Akureyri.

Doktorsverkefni hennar, „Þátttaka, stuðnings- og fræðsluþarfir fullorðinna barna við umönnun mæðra á hjúkrunarheimilum“, snýst um að kanna kynjamun í þátttöku fullorðinna barna í umönnun mæðra sinna og greina þarfir þeirra fyrir fræðslu og stuðning. Fyrsta rannsókn, beinist að sonum íbúa, en í meistaraverkefni sínu hafði Maria rannsakað reynslu dætra. „Ég sá í starfi mínu hversu erfitt tilfinningalega það gat verið fyrir dætur að heimsækja mæður sínar. Þess vegna langaði mig  að rannsaka upplifun dætra fyrst og í kjölfarið lá beinast við að skoða upplifun sona.“ 

Bjóða upp á verkfæri  til að mæta ólíkum þörfum 

Önnur rannsókn snýr að því að þýða og staðfæra spurningalista sem gerir heilbrigðisstarfsfólki kleift að veita markvissari og einstaklingsmiðaðri fræðslu og stuðning. „Sumir aðstandendur eru sáttir við þjónustuna eins og hún er, en aðrir vilja meiri fræðslu og taka virkan þátt. Þess vegna er mikilvægt að hafa verkfæri eins og spurningarlista til að styðja fagfólk við að meta og mæta ólíkum þörfum aðstandenda“. Slíkt tæki hefur hingað til skort á Íslandi. Í Kanada hefur þó verið þróaður sérstakur spurningalisti til að meta þátttöku fjölskyldu á hjúkrunarheimili og mat fjölskyldu á mikilvægi þátttöku þeirra. Maria vonast til að álíka listi geti nýst hér á landi. „Niðurstöður nýtast til að byggja upp samtal milli starfsfólks og aðstandenda sem stuðlar að betra sambandi og auknum gæðum þjónustunnar. Með stöðluðum verkfærum eins og þessu fáum við strax endurgjöf og skiljum betur hvers viðkomandi þarfnast og óskar eftir. Þannig getum við byggt upp traust og gagnkvæman skilning.“   

Kynjamunur í upplifun 

Fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar benda til munar á upplifun kynjanna. „Synir sem tóku þátt virðast leggja meiri áherslu á eigið sjálfsstæði, geta séð sig í vissri fjarlægð frá móður og aðstæðum hennar, á meðan dæturnar sem tóku þátt í meistaraverkefninu  lögðu ríka áherslu á að viðhalda tengslum. „Þetta er auðvitað ekki algilt, samband beggja kynja við móður getur bæði styrkst eða breyst á annan hátt þegar hún flytur á hjúkrunarheimili. Nokkrir upplifa að sambandið batni við þessar aðstæður, að lífsreynsla beggja gefur aukið jafnvægi og gefur möguleika á að njóta tímans saman.“ 

Mikilvægt að skapa opið samtal 

Gott samtal á milli starfsfólks og aðstandenda er lykilatriði. Spurningarlisti sem yrði þýddur og staðfærður hér myndi nýtast til að komast að því hvernig upplýsingar aðstandendur vilji, hvernig þeir vilji  taka þátt í daglegri umönnun og hvernig samskiptum eigi að vera háttað að öðru leyti. „Aðstandendur eru stundum óöruggir um hlutverk sitt en þeir þurfa að finna öryggi í samskiptum sínum við starfsfólk. Mikilvægt er að starfsfólk viti hvernig aðstandandi túlkar þátttöku, hvort hann vilji taka virkan þátt, til dæmis við háttatíma eða matmálstíma, eða hversu mikilvægt honum finnst að vera spurður og upplýstur um ákvarðanir varðandi umönnun svo hægt sé að bjóða það sérstaklega. Fagfólk getur veitt stuðning við að finna rétt umfang þátttöku og finna leiðir sem fara ekki yfir takmörk aðstandenda. Þegar við höfum þessa vitneskju getum við byggt upp traustari samskipti og rætt væntingar og upplifun þeirra af stuðningnum.“  

Þriðja rannsóknin er þversniðsrannsókn sem skoðar kynjamun í þátttöku fullorðinna barna í umönnun móður á hjúkrunarheimili. Slík megindleg rannsókn hefur ekki verið gerð áður hér á landi. Áætlað er að senda út könnun til um 3500 sona og dætra með það markmið að ná 30% svarhlutfalli. Maria er í samstarfi við Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri um framkvæmdina. „Að ná 3500 þátttakendum er svolítið metnaðarfullt markmið en stórt úrtak tryggir marktækar niðurstöður sem nýtast til að fá mynd af upplifun fullorðinna barna af þátttöku sinni við umönnun á hjúkrunarheimilum á Íslandi. Von mín er að niðurstöðurnar leiði til betri þjónustu og upplifunar aðstandenda.“ 

Mannleg tenging og góðvild 

Maria er frá Þýskalandi, en hún kom til landsins fyrst árið 2007 í ævintýraleit. Fljótlega kynntist hún eiginmanni sínum og ákvað að hér vildi hún vera. Hún fór í hjúkrunarfræðinám sem leiddi hana til starfa á hjúkrunarheimili HSN á Sauðárkróki þar sem hún hefur starfað í mörg ár. „Það er gott að vera hér og í þessu gefandi starfi. Ég hef lært mjög mikið, ekki síst um mikilvægi góðra samskipta við aðstandendur í svona aðstæðum. Þessi rannsókn hefur staðfest einmitt það sem ég hef fundið fyrir í starfi, að gefa þurfi aðstandendum meiri gaum. Við erum oft mjög upptekin, en það að sýna virðingu, brosa eða bjóða kaffibolla tekur engan tíma en getur haft mikil áhrif. Ég upplifi það að aðstandendur séu þakklátir fyrir að vera spurðir og boðnar upplýsingar þannig að þeir viti að þeir megi hafa skoðanir á hlutunum. Stundum er fólk dauðþreytt og þá er gott að þau geti fengið að stuðning og viðurkenningu á þeim tilfinningum frá okkur án þess að fá samviskubit. Þannig styðjum við bæði aðstandendur og foreldra þeirra. Ef aðstandanda líður vel, þá líður íbúanum líka vel.“