Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

30. apríl 2025

Aukið aðgengi að læknisþjónustu í heimahjúkrun 

Arna Rún Óskarsdóttir, öldrunarlæknir hjá HSN hélt erindi á Degi öldrunar í mars síðastliðnum.

Arna Rún Óskarsdóttir, öldrunarlæknir hjá HSN hélt erindi á Degi öldrunar í mars síðastliðnum. Hún kynnti reynslu af  heimavitjunum læknis til aldraðra og fjölveikra skjólstæðinga í heimahjúkrun HSN á Akureyri yfir sex mánaða tímabil. Auk samstarfs við heimahjúkrun sinnir Arna Rún ráðgjöf innan HSN þegar grunur er um minnissjúkdóma og áform eru um frekari þjónustu öldrunarlæknis  á starfstöðvum utan Akureyrar. 

„Í mínu starfi sem öldrunarlæknir felst þjónusta við aldraða sem glíma við margskonar heilsufarsvandamál og taka gjarnan mörg lyf sem eykur hættu á aukaverkunum. Mitt hlutverk felst í að sjá heildarmyndina og reyna að finna sem flesta heilsufarslega þætti sem færa má til betri vegar og bæta þannig líðan fólks. Þetta er margbreytilegur hópur og erfðir, lífstíll og félagslegir þættir hafa einnig mikil áhrif”.  

Kom heimavitjunum aftur í gang 

Samkvæmt spám frá Hagstofunni þá fer hópur aldraðra sístækkandi en á sama tíma er þróunin í læknisþjónustu sú að hún fer að mestu leyti fram á heilsugæslu, á sjúkrahúsum eða á læknastofum. Í gegnum árin hefur meira og minna verið horfið frá heimavitjunum lækna af ýmsum ástæðum, en að mati Örnu Rúnar ætti að snúa þeirra þróun við, að minnsta kosti þegar kemur að þeim allra veikustu. „Erlendar rannsóknir sýna að heimavitjanir geta haft jákvæð áhrif á m.a. færni og heilsutengd lífsgæði, lífslengd og fækkað komum á bráðamóttöku sjúkrahúsa. Fólk er orðið hrumara þegar það flytur á hjúkrunarheimili í dag miðað við áður og það lifir skemur eftir að það kemur til dvalar. Það segir okkur að það er orðið veikara heima á meðan það bíður hjúkrunarrýmis og við þurfum því að sinna fólki eins vel og kostur er heima fyrir. Það er auðvitað eitthvað skakkt við að þau sem ekki geta sótt læknisþjónustu utan heimilis vegna hrumleika eða langvinnra veikinda hafi lakari aðgang að læknisþjónustu.“ 

 

Teymisvinna mikilvæg til að ná sem bestum árangri 

Arna Rún hefur í samstarfi við stjórnendur hjá HSN verið að þróa nýtt verklag vitjana til skjólstæðinga í heimahjúkrun HSN á Akureyri. Til að rýna gagnsemi ákvað hún að einblína á vitjanir læknis heim til fólks yfir sex mánaða tímabil frá september 2024 til febrúar á þessu ári. „Ég skoðaði ástæður vitjana og  hvað var gert og svo framvegis. Yfir þetta tímabil var farið í 45 vitjanir til 36 einstaklinga. Aðal ástæður vitjana voru slappleiki og þörf fyrir aukna þjónustu heimahjúkrunar. Flestir fengu eina vitjun og það sem oftast var gripið til í kjölfarið var að rýna lyfin og fækka þeim, t.d. draga úr blóðþrýstingslyfjum við slappleika og byltur eða ráðleggja fólki að draga úr notkun svefnlyfja. Hjá þeim sem fengu fleiri vitjanir var ástæðan aðallega grunur um sýkingar eða þörf fyrir fleiri heimsóknir vegna líknandi meðferðar.   

Niðurstaða Örnu er sú að með góðri samvinnu í teymum, á milli lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða, iðjuþjálfa og fleiri fagstétta er hægt að greina þörf betur og beina læknisaðstoð á réttan stað á réttum tíma. Það er alltaf byggt á faglegu mati hjúkrunarfræðings og teymis þegar ákveðið skal hvort læknir fari í vitjun. „Það kom í ljós í þessari vinnu hversu mikilvægt það er að hafa teymisstjóra sem er með mikla klíníska reynslu, hefur yfirlit og þekkir sína skjólstæðinga, sem getur greint hverjir veikustu einstaklinganir eru og þurfa á lækni að halda eftir að annað hefur verið reynt. Þannig getum við nýtt okkar tíma og mannauð sem best líka.“  

 

Tækifæri í að bæta líðan fólks – seinka innlögnum 

Arna segir að mikil tækifæri séu fólgin í því að efla samvinnu og upplýsingagjöf á milli fagaðila um skjólstæðinga í heimahjúkrun. „Sjúkraskýrslur fólks geyma miklið af upplýsingum um t.d. sjúkdómsgreiningar og lyfjanotkun en geta verið óaðgengilegar þegar heilsufarsvandamálin eru mörg. Það er mikilvægt að vinna saman að því að   bæta aðstæður og líðan fólks, til dæmis með að draga úr eða breyta lyfjum, efla hreyfingu fólks t.d. með sjúkraþjálfunarbeiðni, aðkomu iðjuþjálfa til að meta þörf fyrir hjálpartæki o.s.frv. Mikil þörf er á þverfaglegri nálgun við fólk sem býr heima og er aldrað og hrumt. Mín niðurstaða er sú að vitjanir eru afskaplega mikilvægar og við fáum góðar upplýsingar í þeim heimsókum. Samvinnan við heimahjúkrun hefur verið mjög gefandi, ef við vinnum saman að því að grípa fólk betur á þessu stigi málsins, þá gætum við mögulega seinkað innlögnum á hjúkrunarheimili og fækkað komum á bráðamóttöku og þá er nú til mikils unnið.“