1. júlí 2022
1. júlí 2022
Ársskýrsla embættis landlæknis 2021 er komin út
Út er komin ársskýrsla embættis landlæknis 2021. Í ársskýrslunni má meðal annars finna tölfræðilegar upplýsingar og ýmsan fróðleik um viðfangsefni og aðaláherslur starfsáætlunar, auk aðfararorða landlæknis.
Farið er yfir helstu verkefni embættisins á árinu. Ársskýrslan er eingöngu gefin út rafrænt.
Skoða nánar: Ársskýrsla embættis landlæknis 2021
Aðfararorð landlæknis
Heimsfaraldur COVID-19 gaf lítil grið árið 2021 og áfram voru gríðarlegar annir hjá embætti landlæknis. Mörg verkefni voru á borði embættisins, eins og lesa má um í þessari ársskýrslu, en samhliða umfangsmiklum verkefnum á farsóttartímum vann starfsfólk ötullega að lögbundnum skyldum, auk nýrra verkefna.
Verkefni tengd heimsfaraldri COVID-19 voru áberandi. Sem betur fer höfðu landsmenn brugðist einkar vel við bólusetningum, sem sannarlega vernduðu gegn alvarlegum veikindum, þótt þær verðu síður gegn smiti. Sem fyrr stóðu sóttvarnalæknir og sóttvarnasvið í stafni í viðbrögðum við COVID-19 en með dyggum stuðningi landlæknis og alls starfsfólks embættisins. Auk þess var á sóttvarnasviði m.a. áfram unnið að skynsamlegri notkun sýklalyfja og aðgerðum gegn sýklalyfjaónæmi.
Á sviði eftirlits og gæða fjölgaði kvörtunum vegna heilbrigðisþjónustu, sem og tilkynningum vegna alvarlegra atvika. Stöðugt er reynt að bæta skilvirkni og hafa aldrei fyrr verið afgreiddar eins margar kvartanir og árið 2021. Landlæknir hefur ítrekað bent heilbrigðisráðuneytinu á að brýnt sé að styrkja embættið og sviðið til að bregðast við aukningu í að heita öllum lögbundnum verkefnum þess.
Svið heilbrigðisupplýsinga gegnir mikilvægu hlutverki í vöktun heilbrigðisþjónustu og lýðheilsu, m.a. vegna heimsfaraldursins. Þá brást sviðið við kalli Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og gaf út merka skýrslu um ójöfnuð í heilsu á Íslandi og hvernig hægt er að bregðast við. Þá fékk sviðið nýtt verkefni, sem er að þróa skimunarskrá og vinna margvíslega tölfræði sem tengist skimun fyrir krabbameini í brjóstum og leghálsi.
Lýðheilsusvið vann áfram að uppbyggingu heilsueflandi samfélags, auk þess að taka þátt í vöktun á beinum og óbeinum áhrifum heimsfaraldursins. Á árinu hófst nú í fyrsta sinn framkvæmd sk. lýðheilsumats og er það mikilvægur áfangi. Einnig var hleypt af stokkunum vitundarvakningu um mikilvægi svefns sem undirstöðu heilsu og vellíðanar.
Verkefni tengd COVID-19 voru áfram ráðandi á sviði rafrænna heilbrigðislausna, m.a. áframhaldandi þróun og notkun Heilsuveru og uppfærsla rakningarapps. Verkefni sem tengjast Heilsuveru sneru þó einnig að öðru en faraldrinum. Unnið var að mikilvægum verkefnum er tengjast miðlægum biðlistum, miðlægu lyfkorti og rannsóknagátt, svo dæmi séu tekin.
Svið rekstrar og öryggis vann að fjölbreyttum málum auk þeirra venjubundnu. Má þar nefna styttingu vinnuvikunnar, heilsueflingu á vinnustað, innleiðingu Grænna skrefa og stafræna vegferð embættisins auk þess að miðla góðri yfirsýn yfir rekstur og fjármál embættisins til framkvæmdastjórnar og heilbrigðisráðuneytis.
Ég vil að lokum þakka öllu samstarfsfólki mínu fyrir frábærlega vel unnin störf árið 2021. Það á ekki síst við um sóttvarnalækni. Ég vil líka þakka almenningi fyrir góða þátttöku í sóttvörnum og auðsýnda velvild í garð embættis landlæknis. Það er ósk mín að embætti landlæknis farnist áfram vel og það haldi áfram að vinna að heilsu og vellíðan landsmanna, með því að stuðla að góðri og öruggri heilbrigðisþjónustu, sóttvörnum, heilsueflingu og forvörnum.
Alma D. Möller, landlæknir.