11. maí 2023
11. maí 2023
Ársfundur TR
Á ársfundi TR í dag sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra: ,,Ég vil nota tækifærið og þakka fyrir gott samstarf ráðuneytisins og stofnunarinnar því þegar maður brennur fyrir einhverju þá er gott að vita að fleiri brenna einnig fyrir auknum réttindum og betri kjörum þeirra hópa sem okkur hefur verið falið að sinna."
Stofnun í stöðugri þróun
Í ávarpi Huldar Magnúsdóttur forstjóra kom m.a. fram að um 26% aukning hafi verið í viðskiptavinahópi TR á undanförnum áratug, sem má að mestu rekja til hærri aldurs og fjölgunar þjóðarinnar. „Það er mikilvægt að starfsemi TR aðlagist breyttum aðstæðum á hverjum tíma og að þekking og tækni haldist í hendur við það besta sem gerist í þjónustu í samræmi við kröfur samtímans.“
Mikill fjöldi umsókna í öllum greiðsluflokkum berst til TR í hverjum mánuði og unnar eru að meðaltali 4.386 umsóknir í hverjum mánuði. Tryggingastofnun veitti þjónustu og greiddi til rúmlega 81 þúsund einstaklinga árið 2022, en um 60% þeirra sem fá ellilífeyri, örorku- og endurhæfingarlífeyri, eru konur.
„Við höfum unnið markvisst að bættum verkferlum á árinu til að bæta enn frekar stafræna þjónustu við stækkandi hóp viðskiptavina. Við höfum mætt þessari þróun með aukinni skilvirkni, áræðni og dugnaði starfsfólks, bættum verkferlum og kröftugum upplýsingatæknikerfum sem eru í stöðugri þróun í takt við tímann.“ segir Huld.
Ýmsar skipulagsbreytingar voru gerðar á starfsemi TR á árinu 2022 til að einfalda flæði og upplýsingagjöf, m.a. var sett á fót nýtt starf umboðsmanns viðskiptavina og aukin áhersla á persónuvernd. Lögð var áhersla á gott samstarf við samtök hagsmunaaðila og á árinu var aukinn kraftur settur í upplýsingagjöf til almennings, hagsmunahópa og félagasamtaka.
Alþjóðleg viðurkenning fyrir jafnréttismál
Jafnréttismál skipa veglegan sess í starfsemi TR og voru þau sérstaklega áberandi á árinu. „Við erum stolt af góðum árangri í jafnréttismálum og fengum bæði Jafnvægisvogina og tókum við alþjóðlegum verðlaunum ISSA fyrir jafnrétti fyrir hönd Íslands.“ segir Huld. „Að sama skapi er mikilvægt að huga að því að almannatryggingakerfið mæti þörfum fjölbreytts og síbreytilegs samfélags sem og hópa með ólíkar þarfir og tryggi þannig að jafnræðis sé gætt í hvívetna.“