Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

30. september 2025

Árangursrík heimsókn til Singapore

Birna Íris Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Stafræns Íslands, tók þátt í Digital Gov Exchange (DGX) í Singapore á dögunum. Um er að ræða einn stærsta viðburð sem leiðtogar í stafrænni stjórnsýslu hins opinbera sækja til að kynnast framþróun og áherslum á því sviði.

Digital Gov Exchange (DGX) fór fram í Singapore 8.-10 september 2025.

„Þetta var afar fróðlegur fundur. Það er gagnlegt að sjá hvert önnur ríki eru komin í sinni stafrænu þróun og heyra hverjar núverandi áherslur og áskoranir þeirra eru. Einnig var gaman að fá staðfestingu á því hversu langt við erum komin í alþjóðlegum samanburði; við höfum sögur að segja sem aðrir geta og vilja læra af. Fundir af þessu tagi efla samstarf og miðla hugmyndum og dýrmætri reynslu,“ segir Birna Íris.

Leiðandi á heimsvísu

Fulltrúum þjóða sem eru leiðandi í stafrænni vegferð hins opinbera er boðið til fundarins en þar voru meðal annars þátttakendur frá Ástralía, Kanada, Kína, Eistland, Finnland, Þýskaland, Ísrael, Japan, Nýja-Sjáland, Úkraínu og Bretlandi auk fulltrúa Alþjóðabankans sem meðal annars fjárfestir í og styður við tækniuppbyggingu í fátækustu ríkjum heimsins.

Lærdómur Íslands

Á fundinum hélt Birna Íris erindi þar sem hún miðlaði árangri Íslands í stafrænni þróun og sagði frá verkefnum Stafræns Íslands, hagræðingu og ávinningi stafrænna ferla, fyrirkomulagi rammasamnings verkefnastofunnar og mikilvægri fjárfestingu í tækni og breytingastjórnun. Erindi Birnu fékk góðar viðtökur og fjöldi fundarmanna óskaði eftir frekara samtali og upplýsingum.

Lausnir á krefjandi tímum

Margt áhugavert kom fram á fundinum varðandi reynslu og stöðu ólíkra þjóða. Erindi Úkraínu fjallaði til að mynda um stafræna þróun á stríðstímum; meðan flestar þjóðir huga að stafrænu fullveldi sínu (e. digital sovereignty) með því að hýsa gögn og/eða afrit af gögnum innan lögsögu viðkomandi lands þá hugar Úkraína að stafrænu fullveldi með því að hýsa gögn utan landsins vegna netöryggisógnar heimavið.

Framtíðarhverfi Singapore

Fundurinn endaði á heimsókn til Punggol Digital District (PDD), 50 hektara framtíðahverfis í Singapore þar sem byggðir hafa verið upp háskólar, ýmis fyrirtæki og fjölbreytt þjónusta. Hverfinu er ætlað að verða miðstöð nýsköpunar og þróunar í landinu en þar er sérstök áhersla á sjálfvirknivæðingu, en ýmsar samþættar snjalllausnir voru þróaðar og forritaðar samhliða uppbyggingu hverfisins. Andlitsskannar eru mikið notaðir til auðkenningar einstaklinga á svæðinu og jafnvel stefnt að því að greiðslur fyrir vörur og þjónustu fari sjálfkrafa fram með henni. Græn svæði eru víða, einnig á þökum og útveggjum bygginga en bílaumferð er ekki leyfð.

Nánari upplýsingar um Digital Gov Exchange má nálgast á heimasíðu Gov Tech Singapore.

Hópmynd af þátttakendum á Digital Gov Exchange (DGX) í Singapore

Fylgstu með því nýjasta

Skráðu þig á póstlista Stafræns Íslands og fylgstu með því nýjasta í stafrænni opinberri þjónustu.