Fara beint í efnið

29. júlí 2022

Apabóla er bráð ógn við lýðheilsu þjóða samkvæmt WHO

Nýlega lýsti aðalframkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) því yfir að apabóla væri bráð ógn við lýðheilsu þjóða heims.

Apabóla - Monkeypox

Nýlega lýsti aðalframkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) því yfir að apabóla væri bráð ógn við lýðheilsu þjóða heims. Apabóla er talin uppfylla skilyrði alþjóðaheilbrigðisreglugerðarinnar (IHR) frá árinu 2005 um að vera óvenjulegur atburður (sjúkdómur) sem ógnar lýðheilsu í öðrum ríkjum vegna útbreiðslu milli landa og sem gæti útheimt samstillt alþjóðleg viðbrögð. Yfirlýsingin gefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni tæki til að samhæfa aðgerðir og er viðvörun og hvatning til þjóða heims um að bregðast við í samstilltu átaki og stöðva frekari útbreiðslu veirunnar. Þetta er sjöunda slíka yfirlýsingin frá árinu 2005 en hinar voru vegna inflúensu H1N1 (svínaflensa), mænusótt, zíkaveiru, ebóla veirusýkingar (tvisvar) og COVID-19.

Tíu tilfelli af apabólu hafa greinst á Íslandi en engin alvarleg veikindi orðið. Allir eru karlmenn á miðjum aldri og eru smit allra, nema tveggja, rakin til útlanda. Í vikunni var byrjað að gefa bóluefni gegn apabólu hérlendis samkvæmt áhættumati. Von er á meira bóluefni á næstunni.

Hvað er apabóla?

Apabóla er veira sem veldur sjúkdómi með sama nafni. Apabóla batnar oft af sjálfu sér, sem þýðir að einkenni hverfa venjulega innan tveggja til fjögurra vikna án meðferðar.

Hver eru einkennin sem ég ætti að vera vakandi fyrir?

Einkenni geta verið væg til alvarleg:

  • útbrot í andliti, höndum, fótum, augum, í munni,
    í kringum endaþarmsop eða kynfærin.

    • Útbrot geta verið bólur, blöðrur, sár.

  • bólga og verkir í endaþarmi

  • hiti

  • bólgnir/stækkaðir eitlar

  • höfuðverkur

  • vöðvaverkir

  • þreyta/orkuleysi                                                                                         

Útbrotin geta komið á undan eða eftir öðrum einkennum. Sár og útbrot geta byrjað á höndum, hálsi og andliti og geta breiðst út í restina af líkamanum. Útbrotin geta líka verið fá og staðbundin eins og í kringum kynfæri. Útbrotin eru venjulega sársaukafull og óþægileg.

Í þessu faraldri hafa flest – en ekki öll – tilfelli hingað til greinst hjá hommum, tvíkynhneigðum og öðrum körlum sem stunda kynlíf með körlum, þar sem sár og útbrot koma fram í kringum kynfæri eða í kringum endaþarmsop eða í munni.

Mikilvægt er að árétta að allir sem eru í náinni líkamlegri snertingu við smitandi einstakling geta smitast af apabólu, óháð aldri, kyni eða kynhneigð.

Hvernig dreifist apabóla?

Apabóla smitast ekki auðveldlega á milli fólks. Til að smitast af apabólu þarftu að hafa náið samneyti í lengri tíma við einhvern sem þegar er með apabólu, eða vera í snertingu við sóttmengaða hluti s.s. handklæði, rúmfatnað. Bein snerting við húð með útbrotum eða sárum einhvers með apabólu er sérstaklega áhættusamt.

Ráðleggingar okkar eru meðal annars að:

  • Stunda öruggt kynlíf, þar á meðal að takmarka fjölda bólfélaga og varast kynlíf með ókunnugum. Smokkar geta dregið úr en ekki að fullu útrýmt hættunni af apabólu

  • Handhreinsun með sápu og vatn eða handspritti

Hvað á ég að gera ef mig grunar að ég sé með apabólu?

Ef þú ert með einkenni grunsamleg fyrir apabólu skaltu:

  • Forðast stórar samkomur, veislur, hátíðir og fjölmenna viðburði.

  • Leita til göngudeildar Landspítala eða til heilsugæslunnar.

  • Ekki stunda kynlíf þar til þú hefur leitað til læknis og staðfest að þú sért ekki með smit/sé batnað.

  • Fara í apabólupróf, skv. ráðleggingu læknis.

Hvað á ég að gera ef apabóla er staðfest?

Fylgdu leiðbeiningum heilbrigðisyfirvalda, þar á meðal:

  • Einangraðu þig þar til einkennin hverfa (þegar síðasta hrúðrið hefur fallið af sárum).

    • Taktu þér hlé frá kynlífi. Til varúðar skaltu nota smokk við kynlíf í 12 vikur eftir að sár hafa gróið.

    • Forðastu náið samneyti við fólk sem er viðkvæmara fyrir alvarlegum veikindum af völdum apabólu (þungaðar konur, ung börn, ónæmisbælt fólk).

    • Láttu heilbrigðisyfirvöld vita af útsettum einstaklingum svo þau geti verið upplýst og verndað sig og aðra. Ef þú telur þig ekki geta deilt þessum upplýsingum, skaltu íhuga að hafa samband við aðila sjálf(ur).

Sjá nánar:

Sóttvarnalæknir