Fara beint í efnið

28. apríl 2022

Andlát vegna COVID-19

Að undanförnu hefur verið talsverð umræða í fjölmiðlum um fjölgun andláta á fyrsta fjórðungi þessa árs miðað við undanfarin ár og látið að því liggja að COVID-19 faraldrinum sé um að kenna.

Sóttvarnalæknir - logo

Engir tölfræðilegir útreikningar hafa hins vegar verið gerðir á fjölda andlátanna í samanburði við fjölda andláta undangenginna ára en slíkir útreikningar eru nauðsynlegir til að hægt sé að fullyrða um hvort fjöldinn nú sé marktækt meiri en búast hefði mátt við. 

Sóttvarnalæknir fylgist með fjölda andláta á tímum COVID-19 á þrenna vegu. Í fyrsta lagi er fylgst með fjölda andláta sem tengjast COVID-19 með tilkynningum sem berast beint til sóttvarnalæknis. Í öðru lagi er fylgst með fjölda andláta með dánarvottorðum en á þeim eru að finna dánarorsakir. Það fyrirkomulag hefur hins vegar þann ágalla að nokkrar vikur eða mánuðir geta liðið frá andláti þar til að dánarvottorðin berast embætti landlæknis. Í þriðja lagi er fylgst með heildarfjölda andláta í hverri viku án tillits til dánarorsaka og er sú leið sennilega sú besta til að meta heildaráhrif COVID-19 faraldursins á andlát.

Alls hafa 119 andlát vegna COVID-19 verið tilkynnt sóttvarnalækni frá upphafi faraldursins árið 2020. Fjöldi andláta sem sóttvarnalæknir birtir á covid.is er háður tilkynningum stofnanna og lækna um andlát þar sem COVID-19 var orsök eða meðvirkandi þáttur í dauðsfalli. Framan af voru þessar tilkynningar einungis frá sjúkrastofnunum en í lok febrúar sl. óskaði sóttvarnalæknir eftir að aðrir læknar og hjúkrunarheimili myndu einnig senda inn slíkar tilkynningar. Á sama tíma voru gefnar út leiðbeiningar í sameiginlegu dreifibréfi landlæknis og sóttvarnalæknis um skilgreiningu á dauðsfalli af völdum COVID-19. Skilgreiningin innifelur að dauðsfall af völdum COVID-19 takmarkist við einstakling sem lést innan 28 daga frá greiningu COVID-19 og sjúkdómurinn á beinan eða óbeinan þátt í dauða viðkomandi. COVID-19 dauðsföll eru þannig aðskilin frá COVID-19 tengdum dauðsföllum þar sem sjúkdómurinn á ekki beinan eða óbeinan þátt í dauðsfallinu t.d. ef viðkomandi deyr vegna slyss.

Af 119 andlátum tilkynntum beint til sóttvarnalæknis hafa 82 andlát verið tilkynnt á þessu ári, 8 árið 2021 og 29 árið 2020. Af þeim hefur 61 komið frá Landspítala og 40 frá hjúkrunarheimilum (frá lok febrúar 2022) en 101 var 70 ára eða eldri (85%). Viðbúið er að einhver andlát af völdum COVID-19 hafi ekki verið tilkynnt sóttvarnalækni en það mun koma í ljós þegar dánarvottorð eru yfirfarin og dánarmein skráð endanlega. Landlæknir skráir dánarorsakir í dánarmeinaskrá en þar er farið yfir öll dánarvottorð og beitt alþjóðlegum flokkunarkerfum til að kóða andlát með samræmdum hætti og senda í alþjóðagrunna. Hins vegar getur liðið nokkur tími frá andláti þar til skráning hefur farið fram eins og áður er getið. Dánarorsakir eftir aldri og kyni eru birtar á vef landlæknis og má einnig finna á vef Hagstofunnar.

Þegar dánartölur vegna COVID-19 eru skoðaðar er ekkert kerfi skráningar án galla. Áreiðanlegasta aðferðin til að meta fjölda andláta á tímum COVID-19 er sennilega sú að skoða svokölluð umframdauðsföll. Þá er vikulegur eða mánaðarlegur fjöldi dauðsfalla af öllum orsökum skoðaður og borinn saman við fjölda dauðsfalla undanfarin ár. Tölfræðilega marktæk aukning á dauðsföllum miðað við undanfarin ár, eru þá kölluð umframdauðsföll. Tímaritið Economist hefur haldið út slíkri skráningu um lönd Evrópu og heims (sjá einnig um þeirra aðferðarfræði). Þar má m.a. sjá að lönd Norður Evrópu hafa almennt færri umframdauðsföll en önnur Evrópulönd. Sérstaka athygli vekur hversu fá umframsdauðsföll hafa verið á Norðurlöndunum nema í Svíþjóð.

Á myndum hér að neðan má sjá heildarfjölda andláta per 100.000 á Íslandi eftir mánuðum og fjölda andláta per 100.000 hjá 70 ára og eldri. Mánaðarleg meðaltöl áranna 2012 - 2019 með 95% öryggisbilum, eru borin saman við árin 2020, 2021 og 2022. 95% öryggisbil eru reiknuð samkvæmt Poisson líkindadreifingu og mánaðarlegar tölur 2020 - 2022 sem falla innan öryggisbilsins eru þannig ekki marktækt frábrugðnar tölum fyrri ára.

Þegar öll andlát hér á landi eru skoðuð eftir mánuðum þá kemur í ljós að marktæk fjölgun andláta sást einungis hjá einstaklingum 70 ára og eldri í mars 2022 en ekki í heildarfjölda andláta. Líklega má skýra þessa fjölgun andláta af mikilli útbreiðslu COVID-19 á þessum tíma. Athyglisvert er að marktæk fækkun andláta hjá 70 ára og eldri sást hins vegar í júní til september 2020 og í janúar til mars auk september og október 2021. Þessi marktæka fækkun skýrist vafalaust af þeim sóttvarnaaðgerðum sem þá voru í gildi sem drógu verulega úr sýkingum almennt.

Sóttvarnalæknir