6. nóvember 2023
6. nóvember 2023
Ánægja með Ísland.is eykst milli ára
Við þróun á nýjum vörum og þjónustu er mikilvægt að fylgjast með upplifun notenda. Nýr vefur Ísland.is fór í loftið haustið 2020 og hafa nýjar útgáfur af Mínum síðum Ísland.is og Stafræna pósthólfinu fylgt í kjölfarið.
Við þróun á nýjum vörum og þjónustu er mikilvægt að fylgjast með upplifun notenda. Nýr vefur Ísland.is fór í loftið haustið 2020 og hafa nýjar útgáfur af Mínum síðum Ísland.is og Stafræna pósthólfinu fylgt í kjölfarið.
Nýverið framkvæmdi Gallup netkönnun þar sem notkun og viðhorf til Ísland.is, Stafræns pósthólfs og Minna síðna Ísland.is var kannað. Stafrænt Ísland beytir fjölbreyttum leiðum til að fá endurgjöf á þær stafrænu þjónustur sem eru í boði en könnun Gallup er ein þeirra leiða.
Heilt yfir mælist þekking, notkun og ánægja mjög hátt í öllum hópum sama hvort horft er til aldurs, búsetu, menntunar eða tekna. Svörin gefa til kynna að stafræn vegferð hins opinbera sé á réttri leið og í takti við vilja og væntingar landsmanna.
Þekking og notkun landsmanna á Ísland.is eykst í 91% og þeim fækkað úr 6% í 3% sem hafa aldrei heyrt vefsíðunnar getið.
Sá aldurshópur sem notar vefinn minnst er eldra fólk en þó hefur 80% af 65 ára og eldri notað Ísland.is, sem er aukning um 8% milli ára. Í öðrum aldurhópum var notkun á bilinu 91%-96%, sem er sömuleiðis aukning milli ára. Ef notkun er skoðuð út frá búsetu þá nýtir landsbyggðin vefinn hvað oftast þó munurinn milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins sé aðeins örfá prósentustig.
Sama mynstur var að sjá á Mínum síðum Ísland.is þar sem hlutfall þeirra sem þekkir og notar Mínar síður er komið í 90% og hækkar um 5% milli ára.
Þekking og notkun á Stafræna pósthólfinu jókst töluvert milli ára og fór úr 54% í 69% milli ára. 65 ára og eldri hafa notað Stafræna pósthólfið hvað minnst eða 45% sem er þó 15% aukning frá því í fyrrra. Mest mældist notkun hjá 35-44 ára líkt og í fyrra en jókst í 82%
Heilt yfir var ekki að sjá mikinn mun á notkun og þekkingu á Ísland.is hjá konum og körlum þó mældust notkun kvenna ögn hærri.
Ánægja með Ísland.is mælist mjög há þar sem 71% svarenda eru ánægð með vefinn, 68% ánægð með Mínar síður og 69% með Stafræna pósthólfið.
Áfram verður fylgst með þekkingu, notkun og ánægju notanda og niðurstöður nýttar í forgangsröðun stafrænna verkefna.
Netkönnunin var framkvæmd af Gallup dagana 11.-23. október 2023 fyrir Stafrænt Ísland. Könnunin var send til 1696 manns af öllu landinu, 18 ára og eldri, handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup. Þátttökuhlutfall var 50.2%.