Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

30. október 2025

Alvarleg fjárhagsstaða embættis ríkislögreglustjóra

Við áætlanagerð undir lok árs 2024 var ljóst að fjárhagsstaða embættis ríkislögreglustjóra var mjög alvarleg og álag mikið vegna viðvarandi almannavarnarástands á Suðurnesjum, öryggisgæslu vegna opinberra viðburða og heimsókna á vegum stjórnvalda, fjölgunar útkalla vegna alvarlegra ofbeldisbrota og aukning verkefna tengdum umsækjendum um alþjóðlega vernd.

Þetta hefur leitt til áætlaðs 1,49 milljarðs króna halla samtals árin 2023 til 2025, eða 5,4% af 27,4 milljarða króna veltu stofnunarinnar þessi ár.  

Í byrjun árs upplýsti ríkislögreglustjóri dómsmálaráðherra um frávik frá rekstraráætlun, ástæður þeirra og fyrirhuguð viðbrögð við þeim. Í framhaldi tók ráðuneytið ákvörðun um að gera úttekt á fjármálum embættisins. Sú úttekt liggur nú fyrir og staðfestir hún þær áhyggjur sem embættið hefur haft af rekstrinum og sýnir alvarlega stöðu þess.  

Embætti ríkislögreglustjóra hefur gripið til ráðstafana sem fela í sér niðurskurð og hagræðingar. Hafa þær tekið mið af forgangsröðun verkefna með tilliti til viðvarandi verkefnaálags. Þá hefur verið skoðað að sameina eða hætta verkefnum, endurskoða samninga og innkaup, styrkja innra eftirlit og vinna með dómsmálaráðuneytinu að því að aðlaga ramma að fjárlögum ársins 2026.   

Óhjákvæmilegt hefur verið að ráðast í uppsagnir starfsmanna, auk þess að ráða ekki í þær stöður sem losna og ekki framlengja tímabundna ráðningu starfsmanna, þar á meðal tímabundna ráðningu ráðgjafans sem hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum.  

Uppsagnir á starfsfólki fela í sér erfiðar ákvarðanir og mun embættið leggja áherslu á að styðja við það starfsfólk sem breytingarnar hafa áhrif á. Embættið mun einnig nú, sem endranær, hafa það að leiðarljósi að öryggisstig og viðbúnaðargeta embættisins verði ekki skert og öryggi samfélagsins og stuðningur við lögregluembættin tryggt á sem besta mögulegan hátt. Þá mun embættið halda áfram að upplýsa um framgang mála.   
 
Embætti ríkislögreglustjóra harmar þau mistök sem gerð voru í tengslum við viðskipti við félagið Intra og mun læra af þeim mistökum sem gerð voru. 

Frekari upplýsinga veitir Helena Rós Sturludóttir, samskiptastjóri ríkislögreglustjóra. 

------------------

Fréttin var uppfærð kl 23:05. Í upprunalegri frétt kom fram að fjárhagsstaða embættis ríkislögreglustjóra var mjög alvarleg vegna viðvarandi almannavarnarástands á Suðurnesjum, öryggisgæslu vegna opinberra viðburða og heimsókna á vegum stjórnvalda, fjölgunar útkalla vegna alvarlegra ofbeldisbrota og aukning verkefna tengdum umsækjendum um alþjóðlega vernd.

Henni var breytt í eftirfarandi:

Við áætlanagerð undir lok árs 2024 var ljóst að fjárhagsstaða embættis ríkislögreglustjóra var mjög alvarleg og álag mikið vegna viðvarandi almannavarnarástands á Suðurnesjum, öryggisgæslu vegna opinberra viðburða og heimsókna á vegum stjórnvalda, fjölgunar útkalla vegna alvarlegra ofbeldisbrota og aukning verkefna tengdum umsækjendum um alþjóðlega vernd.