8. september 2023
8. september 2023
Alþjóðadagur sjúkraþjálfunar er í dag
Haldið er upp á alþjóðadag sjúkraþjálfunar í dag 8. september. Þemað í ár er gigt og hefur Félag sjúkraþjálfara þýtt tvö upplýsingaplögg í tilefni dagsins sem hafa nú verið birt á vef Heimssambandsins. Við SAk eru starfandi um 11 sjúkraþjálfarar og sinna mjög fjölbreyttum verkefnum
Sjúkraþjálfun á SAk fer fram á tveimur starfsstöðvum, í aðalbyggingu SAk við Eyrarlandsveg tengd bráðadeildum og á Kristnesspítala fyrir skjólstæðinga öldrunarlækninga og endurhæfingar. Skjólstæðingar sjúkraþjálfara eru einstaklingar sem sækja þjónustu á SAk og þurfa aðstoð við að viðhalda eða endurhæfa hreyfigetu og virkni. Sjúkraþjálfarar leggja mat á getu og þarfir hvers og eins og veita meðferð, þjálfun, fræðslu eða ráðgjöf eftir því.
Upplýsingaplögg frá Félagi sjúkraþjálfara hér.
Á Kristnesspítala eru starfræktir göngu- og vatnsleikfimihópar, þjálfun í tækjasal, hjólahópar, háls- og herðaleikfimi, léttleikfimi og boccia. Sjúkraþjálfarar á Kristnesspítala vinna í þverfaglegum teymum og taka þátt í sértækri fræðslu og meðferðastarfsemi m.a. fyrir fólk með langvinna verki, ofþyngd, lungnasjúkdóma og eftir krabbameinsmeðferðir.
Við SAk eru starfandi um 11 sjúkraþjálfarar og þeim til halds og trausts er einnig starfandi aðstoðarfólk.
„Góðir vinnufélagar eru gulls í gildi og svo eru verkefnin mjög fjölbreytt og mörg“
Nafn: Kristín Inga Pálsdóttir
Aldur: 44ra ára
Hvaðan ertu: Uppalin í Reykhúsum í Eyjafjarðarsveit en á ættir að rekja á Selfoss, af Skeiðunum, úr Skagafirði og Eyjafirði.
Menntun: Stúdent frá MA og löggiltur sjúkraþjálfari frá HÍ.
Áhugamál: Hreyfing af ýmsu tagi, skokk, gönguskíði, hjól, jóga o.fl. Helst vil ég hreyfa mig úti í fallegri náttúrunni en ég er líka tíður gestur í Sundlaug Akureyrar. Mig langar að prófa að æfa rathlaup og auglýsi hér með eftir áhugasömum þjálfara sem getur búið til fjölskylduvænan æfingahóp.
Hvað varstu í fyrra lífi: Kannski íslenskur mófugl, því ég uni mér mjög vel umkringd berjalyngi og mosa.
Sturluð staðreynd: Ég hef aldrei komið til Tenerife.
Hvernig lítur dagur út í lífi sjúkraþjálfara á SAk:
Morguninn fer í að athuga hvort nýjar beiðnir hafi borist, lesa um hvernig skjólstæðingum gærdagsins reiðir af, fræða fólk fyrir aðgerðir í svokallaðri pre-op fræðslu og skipuleggja verkefni dagsins. Smá kaffisopi fyrir kl. 10 og svo upp á deildir að vinna. Þegar matartíminn er á deildum gerum við dagnótur, nærum okkur og skipuleggjum afganginn af deginum.
Helstu verkefnin á deildum eru t.d. æfingar og hækjuþjálfun eftir liðskiptiaðgerðir og brot, bæði á bæklunardeild og barnadeild, við kennum notkun á fötlum og spelkum vegna brota og kennum öndunaræfingar og hreyfingu eftir stórar kviðaðgerðir, bakaðgerðir og vegna hjarta- og lungnasjúkdóma. Við metum göngufærni og jafnvægi og útvegum gönguhjálpartæki við hæfi, fræðum konur á fæðingardeild um þjálfun eftir fylgikvilla fæðinga og sinnum eftirliti og fræðslu í meðferð á hásinaslitum. Við komum að þjálfun eftir aflimanir og heilablæðingar og skiptumst á að fara á vikulega Teamsfundi með öðrum deildum og þjónustuaðilum Akureyrarbæjar varðandi útskriftarmál. Einnig eigum við reglulega fundi með kollegum okkar á Kristnesi. Störf okkar eru margvísleg og ekki að fullu upptalin. Því er óhætt að segja að við komum víða við á sjúkrahúsinu.
Hvað er skemmtilegast í vinnunni:
Góðir vinnufélagar eru gulls í gildi og svo eru verkefnin mjög fjölbreytt og mörg. Það sem er mest gefandi er þegar maður fær tækifæri til að aðstoða við og fylgjast með bata skjólstæðinga.
Hvað er mest krefjandi í vinnunni?
Það sem er skemmtilegt við vinnuna er líka það sem er mest krefjandi en fjölbreytni verkefna kallar á að við séum tilbúin að rifja upp og/eða kynna okkur fræðin og viðeigandi aðferðir og hjálpartæki hverju sinni.
Ef þú mættir breyta einhverju í vinnunni, hvað væri það?
Það væri frábært að uppfæra æfingasalinn okkar og fá ný tæki í hann.
Við óskum öllum sjúkraþjálfurum til hamingju með daginn!