21. febrúar 2025
21. febrúar 2025
Alma Möller heilbrigðisráðherra heimsækir HSN
Í gær heimsótti Alma Möller heilbrigðisráðherra Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) ásamt Eydísi Ásbjörnsdóttur, þingmanni Norðaustur kjördæmis, og Jóni Magnúsi Kristjánssyni, aðstoðarmanni heilbrigðisráðherra.

Í heimsókninni var fundað með framkvæmdastjórn HSN þar sem rædd voru ýmis mál er varða starfsemi stofnunarinnar. Í framhaldinu bættust við stjórnendur á Heilsugæslunni á Akureyri (HAk), auk Alice Hörpu, forstöðumanns sálfélagslegrar þjónustu hjá HSN og Lilju Sifjar félagsráðgjafa og verkefnisstjóra innleiðingar hjá HSN Akureyri.
Alice Harpa fór yfir sálfélagslega þjónustu sem hefur fjögur teymi; sálfræðiþjónusta barna, sálfræðiþjónusta fullorðinna, geðheilsuteymi barna og geðheilsuteymi fullorðinna. Lilja Sif kynnti innleiðingu á teymisvinnu sem er að gefa góða raun og hefur staðið yfir síðasta árið á Heilsugæslunni á Akureyri.
Eftir fundinn var boðið upp á skoðunarferð um heilsugæslunastöðina sem opnuð var fyrir ári síðan og var ekki annað að sjá en að gestirnir væru hrifnir af glæsilegri aðstöðu.
"Við erum mjög ánægð með gott áframhaldandi samstarf HSN og ráðuneytisins. Stuðningur og skilningur á verkefnum HSN er lykilatriði í að bæta heilbrigðisþjónustu á Norðurlandi. Við horfum björtum augum til framtíðar og viljum styrkja þjónustuna enn frekar" segir Jón Helgi Björnsson forstjóri HSN.
