Fara beint í efnið

16. september 2024

Áföll - Gulur september

Í tengslum við forvarnarátakið Gulur september skrifar Hrafnhildur Lilja Harðardóttir um áföll.

DFS
Áföll - hvenær þurfum við hjálp og hvert getum við leitað

Fæst okkar komast í gegnum lífið áfallalaust en áætlað er að um 70% fólks upplifi alvarlegt áfall á lífsleiðinni. Áföll eru margskonar, þau geta verið afmarkað atvik eða röð atvika yfir lengri tíma en eiga það sameiginlegt í flestum tilvikum að valda sterkum streituviðbrögðum hjá einstaklingi. Dæmi um viðbrögð í kjölfar áfalls eru ágengar endurminningar, doði, svefntruflanir, einbeitingarskortur, martraðir, sjálfsásökun, sektarkennd og fleira. Allt eru þetta eðlileg viðbrögð heilbrigðs fólks í kjölfar áfalls og gefur einfaldlega til kynna að kerfið er að takast á við og vinna úr því sem hefur gerst. Það er algengur misskilningur að öll áföll þarfnist sérstakrar úrvinnslu hjá fagaðilum en raunin er sú að við mannfólkið höfum flest þá hæfni að takast á við og komast í gegnum áföll með góðum stuðningi nákominna. Þó getur það gerst að afleiðingar áfalls geta orðið að langvinnum og hamlandi vanda sem þarfnast meðhöndlunar hjá fagaðilum. Það sem máli skiptir í því samhengi er ekki endilega hvert áfallið er, heldur hvað gerist innra með manneskju sem verður fyrir áfallinu. Tveir einstaklingar geta orðið fyrir samskonar lífsreynslu/áfalli og annar þróað með sér áfallstreituröskun en hinn ekki. Ýmislegt getur haft áhrif á það hvort einstaklingur veikist af áfallastreituröskun í kjölfar áfalls, svo sem fyrri áfallasaga, annar undirliggjandi vandi (s.s. kvíði, þunglyndi o.fl.), félagsumhverfi, það hvort einstaklingur upplifði sig eða aðra í lífshættu og fleira.

Hvenær er rétt að leita til fagfólks?

Tekið skal fram að sum áföll eru líklegri en önnur til að valda langvinnum vanda. Sem dæmi er fólk sem verður fyrir áföllum af mannavöldum (t.d. ofbeldi) líklegra til að þróa með sér áfallastreitu en fólk sem verður fyrir náttúruhamförum eða slysum. Fyrst um sinn, eftir að atburður á sér stað, er stuðningur nákominna og eftir atvikum áfallahjálp sú meðhöndlum sem fólk þarfnast helst. Áfallahjálp er ekki meðferð enda áfallastreituviðbrögð í kjölfar áfalls eðlileg. Nákomnir eru oft á tíðum best til þess fallnir að veita slíkan stuðning en einnig hefur fagfólk komið að slíku teljist þess þörf. Þegar eðlileg úrvinnsla á sér stað eftir áfall dregur smám saman úr þeim truflandi einkennum sem áfallið olli. Það ferli getur verið allt frá nokkrum dögum og upp í mánuði. Ef, hins vegar, ekki dregur úr þessum truflandi einkennum með tímanum, eða þau jafnvel versna og verða verulega hamlandi í daglegu lífi, gæti svo verið komið að einstaklingur hafi þróað með sér áfallastreituröskun.


Viðbrögð barna við áföllum

Börn, rétt eins og fullorðnir, geta sýnt sterk streituviðbrögð í kjölfar áfalla. Birtingarmyndir streituviðbragða í kjölfar áfalla hjá börnum geta verið ólíkar eftir aldri barns og þroska. Dæmi um viðbrögð barna eru kvíði (s.s. aðskilnaðarkvíði frá foreldrum), hegðunarbreytingar, svefntruflanir, reiði og pirringur, barnið einangrar sig eða tapar niður tengslum við vini, athyglistruflanir, líkamlegar umkvartanir, að tapa niður færni og jafnvel námserfiðleikar. Börn eru í grunninn þrautseig og ná í mörgum tilvikum að vinna úr áföllum með góðum stuðningi foreldra og nærumhverfis. Það á samt sem áður við um börn eins og fullorðna að streituviðbrögð í kjölfar áfalls eru eðlileg en verði þau til þess að barnið þróar með sér langvarandi vanda sem veldur hömlun í daglegu lífi getur verið ástæða til að leita til fagaðila.
Rannsóknir gefa til kynna að góður árangur getur náðst við meðferð áfallastreituröskunar þar sem verulega dregur úr hamlandi einkennum. Þær meðferðir sem best hafa reynst eru áfallamiðuð hugræn atferlismeðferð eða EMDR meðferð. Ef vafi leikur á því hvert skal leita í kjölfar áfalls má alltaf hafa samband við heilsugæslu um ráðgjöf en eftirfarandi eru dæmi um aðila og stofnanir sem komið hafa að áfallastuðningi, sorgarstuðningi, stuðningi vegna ákveðinna veikinda eða tiltekinna áfalla, og meðferðar vegna áfallastreituröskunar.

  • Áfallateymi Landsspítala

  • Heilsugæslan

  • Sérfræðingar á stofum

  • Félagasamtök veita gjarnan stuðning fyrir ákveðna hópa (t.d. Krabbameinsfélagið, Píeta samtökin, Alzheimer samtökin, Gleym mér ei, Ljónshjarta o.fl.)

  • Prestar og fjölskylduþjónusta kirkjunnar (sorgarstuðningur)

  • Bráðamóttaka geðsviðs (ef mál þolir ekki bið)

Hrafnhildur Lilja Harðardóttir
Sálfræðingur

Gulur september (1)