11. júlí 2025
11. júlí 2025
Aðgerðadagar Europol
Dagana 1.- 6. júní sl. tóku íslensk lögregluyfirvöld þátt í alþjóðlegum aðgerðadögum Europol, Frontex og Interpol gegn mansali.

Aðgerðirnar, undir heitinu Global Chain, náðu til 43 landa þar sem sjónum var beint að mansali með sérstaka áherslu á kynferðislega hagnýtingu (vændi), þvingaða brotastarfsemi og betl. Hér á landi var farið á þriðja tug staða/heimila og athugað með um 250 manns. 36 af þeim voru taldir hugsanlegir þolendur mansals og var öllum boðin viðeigandi aðstoð. Langflestir voru frá Rúmeníu og konur í miklum meirihluta, eða 32. Af hugsanlegum þolendum mansals seldu 34 sig í vændi, en fólkið er á aldrinum 19-54 ára. Umrædda daga voru enn fremur greind 215 flug m.t.t. hugsanlegra fórnarlamba mansals og brotamanna.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, lögreglan á Suðurnesjum, embætti ríkislögreglustjóra og tollgæslan tóku þátt í aðgerðadögunum.