26. janúar 2024
26. janúar 2024
Að vera erlendur læknir í starfi hjá SAk
Corina Labitzke er þýskur svæfinga- og bráðalæknir sem hefur starfað við SAk í fimm ár.
„Ég flutti til Íslands árið 2018 eftir fjölmargar heimsóknir hingað sem ferðamaður. Í hvert skipti naut ég þess að vera hérna og kveið þess jafnframt að þurfa að fara aftur af landi brott. Ég hef áður unnið í öðrum löndum en mínu heimalandi svo sem í Sviss, Lúxemborg, Króatíu og Ástralíu - mér líkar mjög við áskorunina að flytja til annars lands,“ segir Corina.
Fyrir ESB borgara með evrópskt prófskírteini er ekki tiltökumál að flytja til Íslands. Corina segir að það hafi verið mjög vel tekið á móti henni á deildinni en teymið er alþjóðlegt: „Þannig gat teymið gefið mér góð ráð um hvernig bera eigi sig að hér á landi.“ Það kom Corinu á óvart hversu fáir hjúkrunarfræðingar eru karlkyns: „Ég er vön því að það sé næstum jöfn skipting kynjanna á gjörgæslu- og svæfingadeildum.“
Corina kann að meta íslenskt samfélag og finnst fjölskyldan hér hafa meira gildi en í öðrum vestrænum löndum. Hún hefur gaman af því hvað þarf lítið til að gleðja landann: „Það hvernig allir eru ánægðir með sólríkan dag er ótrúlegt. Krafturinn í náttúrunni og hvernig fólk aðlagar sig að því.“ Hún segist kunna vel við veturinn þar sem birtan sé svo einstök og að mannfólkið lifi í raun í sífelldri sólarupprás og sólsetri. „En það er líka grátt og dimmt og ég tek D-vítamín. Annars er þetta í góðu lagi.“
Corinu hefur gengið ágætleg að læra íslensku en langar til að læra meira. Hún er nýbyrjuð aftur í íslenskunámi. „Ég sakna þess að geta ekki tjáð mig almennilega við sjúklinga en það er einmitt það sem ég er að vinna að núna. Að geta sagt brandara og notað orðatiltæki er markmiðið mitt.“