Fara beint í efnið

19. nóvember 2020

Vissir þú að áfengi getur verið krabbameinsvaldandi?

Evrópsk vika vitundarvakningar um skaðleg áhrif áfengis stendur nú yfir. Markmið vikunnar er að vekja athygli stjórnvalda á skaða af völdum áfengis, auka vitund um nauðsyn þess að taka á áfengistengdum skaða í Evrópu og varpa ljósi á nauðsyn þess að bregðast við með samþættri nálgun í áfengisstefnu stjórnvalda.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Evrópsk vika vitundarvakningar um skaðleg áhrif áfengis stendur nú yfir. Markmið vikunnar er að vekja athygli stjórnvalda á skaða af völdum áfengis, auka vitund um nauðsyn þess að taka á áfengistengdum skaða í Evrópu og varpa ljósi á nauðsyn þess að bregðast við með samþættri nálgun í áfengisstefnu stjórnvalda.

Rannsóknir hafa leitt í ljós að um 12% krabbameina á heimsvísu tengjast áfengisdrykkju. Orsakasamhengi er á milli áfengisneyslu og ýmissa krabbameina, þar á meðal nokkurra algengustu meinanna, svo sem brjóstakrabbameins hjá konum og krabbameins í ristli og endaþarmi. Eitt af hverjum tíu tilfellum ristilkrabbameins tengist áfengisdrykkju.

Árið 2018 voru í Evrópu um 180 000 tilfelli krabbameina og tæplega 92 000 dauðsföll vegna krabbameina rakin til áfengisdrykkju. Örugg mörk áfengisnotkunar eru ekki þekkt og sýnt hefur verið fram á að jafnvel hófleg notkun eykur áhættu fyrir krabbameini og eykst áhættan eftir því sem notkunin er meiri.

Koma má í veg fyrir krabbamein og dauðsföll af völdum áfengis með því að draga úr áfengisneyslu þjóðarinnar. Það næst með stefnumótun og aðgerðum, sem þekkt er að skili árangri, s.s. takmörkun á aðgengi, bann við markaðssetningu áfengis og hátt verð.

Frekari upplýsingar má finna hér í skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO).

Nánari upplýsingar veitir:

Rafn M. Jónsson, verkefnisstjóri lýðheilsusviði
netfang: rafn@landlaeknir.is