8. október 2021
8. október 2021
Viðmið fyrir heilsueflandi vinnustað kynnt
Fimmtudaginn 7. október voru viðmið fyrir heilsueflandi vinnustað kynnt og vefsvæði opnað sem fyrirtæki og stofnanir geta nýtt sér til að skapa heilsueflandi umhverfi fyrir starfsfólk sitt.
Fimmtudaginn 7. október voru viðmið fyrir heilsueflandi vinnustað kynnt og vefsvæði opnað sem fyrirtæki og stofnanir geta nýtt sér til að skapa heilsueflandi umhverfi fyrir starfsfólk sitt.
Embætti landlæknis, Vinnueftirlit ríkisins og VIRK Starfsendurhæfingarsjóður skrifuðu undir viljayfirlýsingu þann 21. febrúar 2019 um samstarf varðandi heilsueflingu og forvarnir á vinnustöðum. Í samstarfinu fólst m.a. mótun viðmiða fyrir heilsueflandi vinnustaði sem og upplýsingamiðlun til að tryggja að vinnustaðir hafi góð verkfæri til að skapa heilsueflandi umhverfi. Nú liggja þessi viðmið fyrir og 7. október voru þau kynnt og gerð aðgengileg öllum fyrirtækjum og stofnunum í landinu á sérstöku vefsvæði á heilsueflandi.is.
Endurgjöf vinnustaða mikilvæg
Endurgjöf frá stjórnendum og leiðandi aðilum á vinnustöðum var mjög mikilvægur þáttur við gerð viðmiðanna og fjölbreyttur hópur þeirra kynnti sér viðmiðin og rýndi þau m.a. á einum morgunfundanna um heilsueflingu á vinnustöðum. Í framhaldi af því fóru viðmiðin og verklag fyrir heilsueflandi vinnustað í tilraunakeyrslu hjá nokkrum vinnustöðum.
Vinnustaðirnir sem tóku þátt í tilraunakeyrslunni voru valdir úr stórum hópi umsækjenda og var tekið mið af starfsemi, stærð og staðsetningu. Leitast var við að hafa þá sem fjölbreyttasta til að hægt væri að prufa verklagið við mismunandi aðstæður. Auk valinna vinnustaða tóku stofnanirnar þrjár sem standa að þróun á Heilsueflandi vinnustað einnig þátt. Samtals voru það því 13 fyrirtæki og stofnanir sem tóku þátt í tilraunakeyrslunni á viðmiðunum. Þessi fyrirtæki og stofnanir - sem sjá má hér að ofan - eiga sérstakar þakkir skilið fyrir framtakið og samstarfið.
Samstarf um heilsueflandi vinnustaði endurnýjað
Eins og áður hefur komið fram þá undirrituðu Embætti landlæknis, Vinnueftirlit ríkisins og VIRK viljayfirlýsingu um samstarf varðandi heilsueflingu og forvarnir á vinnustöðum í febrúar 2019. Nú – sjö morgunfundum um heilsueflandi vinnustaði seinna og þegar viðmið um heilsueflandi vinnustað eru komin í loftið – þá var tilefni til þess að ítreka og endurnýja samstarfið og vinna áfram að heilsueflingu á vinnustöðum.
Alma Möller landlæknir, Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir forstjóri Vinnueftirlitsins og Vigdís Jónsdóttir framkvæmdastjóri VIRK rituðu því undir viðauka við fyrri viljayfirlýsingu til staðfestingar áframhaldandi samstarfs stofnanna þriggja. Það var tímanna tákn að Hanna Sigríður undirritaði viðaukann í gegnum Teams því hún var í smitgát og vann heima þennan dag til að gæta fyllsta öryggis.
Næsti morgunfundur um heilsueflandi vinnustaði verður haldinn miðvikudaginn 10. nóvember. Viðfangsefnið verður breytingar á vinnustöðum eftir Covid og aðalfyrirlesari verður Lisa Vivoli Straume forstöðukona og stofnandi MIND í Noregi. Nánari upplýsingar þegar nær dregur.
Upptaka af kynningunni á viðmiðunum má sjá hér – athugið að vegna tæknilegra örðugleika þá vantar hluta af kynningunni á heilsueflandi.is - og glærurnar úr kynningunum má finna hér að neðan.
Heilsueflandi vinnustaður – af hverju? Ingibjörg Loftsdóttir sviðsstjóri hjá VIRK
Kynning á heilsueflandi.is Inga Berg Gísladóttir verkefnastjóri hjá embætti landlæknis