Fara beint í efnið

6. september 2018

Vel sótt ráðstefna um jákvæða menntun í heilsueflandi skólastarfi

Ráðstefna Embættis landlæknis um jákvæða menntun í heilsueflandi skólastarfi var haldin föstudaginn 31. ágúst.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Ráðstefna Embættis landlæknis um jákvæða menntun í heilsueflandi skólastarfi var haldin föstudaginn 31. ágúst. Um 300 manns sóttu ráðstefnuna þar sem erlendir og innlendir fyrirlesarar fjölluðu um ýmsar hliðar jákvæðrar menntunar. Eftir hádegi var unnið í vinnustofum þar sem kafað var dýpra í ákveðnar aðferðir.

Ráðstefnan hófst með ávarpi Lilju Daggar Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra. Í máli hennar kom fram að vellíðan barna væri grunnur að öllum umbótum í skólastarfi. Verið er að móta menntastefnu til ársins 2030 sem felur í sér umbætur og framþróun í skólastarfi. Unnið er að eftirfylgni við skýrslu um menntun fyrir alla í leik- grunn- og framhaldsskólum sem kom út árið 2016 en fimm ráðuneyti auk Sambands íslenskra sveitarfélaga koma að þeirri vinnu. Einn liður í því er fundaröð vítt og breytt um landið þar sem lögð er áhersla á samvinnu og samhæfingu allra aðila um þjónustu við nemendur og fjölskyldur þeirra.

Hans Henrik Knoop frá Árósarháskóla kynnti niðurstöður rannsóknar á yfir 250.000 nemendum í Danmörku sem sýndu að leiði á meðal nemenda eykst eftir því sem þeir verða eldri. Hann benti á að ekki megi ganga út frá því að börnum finnist einfaldlega leiðinlegt í skólanum heldur þurfi að skoða kennsluhætti. Leiði dregur úr líkum á vellíðan í námi, skerðir athygli nemenda og námsárangur. Til að draga úr þessum leiða þarf að hjálpa nemendum að finna tilgang með náminu, efla sköpun, flæði og leik nemenda.

Ingibjörg Kaldalóns frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands ræddi um mikilvægi þess að starfsfólk tileinki sér fyrst þá færni sem á að kenna, sem dæmi áhugahvöt, núvitund og innri hvatningu. Í rannsókn sem gerð var á Íslandi um starfshætti í grunnskólum kom fram að mjög misjafnt er hversu hátt hlutfall kennara telur skólann sinna því mjög vel að efla þroska og velferð nemenda. Hlutfallið var frá 8 - 74% milli skóla. Þar er sóknarfæri til að gera betur. Einnig kom fram að nokkuð ábótavant var að tilgangur verkefna væri útskýrður fyrir nemendum. Mikilvægt er fyrir alla að finna tilgang í starfi og leik og hægt er að nota margvíslegar aðferðir til að efla það starf.

Bryndís Jóna Jónsdóttir frá Núvitundarsetrinu sagði frá rannsókn sem verið er að vinna í sex grunnskólum og einum leikskóla um áhrif núvitundar. Sýnt hefur verið fram á að núvitund getur meðal annars aukið vellíðan, hvatastýringu og tilfinningastjórnun. Við innleiðingu núvitundarkennslu segir Bryndís mikilvægt að byrja á því að þjálfa starfsfólk fyrst svo það tileinki sér færnina áður en kennsla hefst.

Maggie Fallon frá Education Scotland, sagði frá umbótum sem unnið hefur verið að í skoska menntakerfinu. Í aðalnámskrá þeirra eru þrjár grunnstoðir; læsi, talnalæsi og heilsa og vellíðan. Áhersla er lögð á jákvæð samskipti þar sem börn og unglingar upplifa að á þau er hlustað og að þau upplifi öryggi og hæfni til að ræða viðkvæma hluti. Áður hafi gjarnan verið talað um hegðun barna og ungmenna en nú sé áherslan að færast yfir í að tala um samskipti, bæði barna á milli og milli fullorðinna og barna. Mikill ójöfnuður er í Skotlandi sem birtist meðal annars í því að við fimm ára aldur er 11-18 mánaða munur á orðaforða eftir því hvaða bakland börnin hafa.

Magnús Þorkelsson skólameistari Flensborgarskólans talaði út frá sjónarhorni stjórnenda um menntun til farsældar. Flensborgarskólinn var fyrstur skóla á Íslandi að gerast Heilsueflandi framhaldsskóli og miðlaði reynslu sinni af þeim níu árum sem liðin eru. Meðal áhersla sem unnið hefur verið með eru núvitund, gróskuhugarfar og áhersla á einstaklinginn. Magnús lagði áherslu á að hlúa vel að starfsfólki skólans og að hlutverk skólameistara væri m.a. að koma í veg fyrir kulnun og skapa starfsaðstæður þar sem fólk nær að blómstra. Hann nefndi einnig að mikilvægt væri að horfa til þess hvað nemandi lærir en ekki einblína á hvað var kennt og leggja áherslu á að sýna ungu fólki að það skipti máli.

Alma D. Möller landlæknir, fjallaði um mikilvægi þess að fjárfesta snemma í börnum. Skólar gegna þar lykilhlutverki í heilsueflingu og forvörnum. Sú fjárfesting skilar sér sannarlega tilbaka og það er allra hagur að vel standa vel að því. Heilsa er ekki aðeins málefni heilbrigðiskerfisins. Lifnaðarhættir, félags- og efnahagslegir þættir, auk umhverfisþátta hafa mikil áhrif á líf og heilsu.

Að lokum tók til máls Dóra Guðrún Guðmundsdóttir sviðsstjóri áhrifaþátta heilbrigðis hjá Embætti landlæknis. Hjá embættinu er unnið að Heilsueflandi samfélagi og Heilsueflandi skólum þar sem áhersla er lögð á vellíðan fyrir alla. Mikilvægt er að vinna að heilsueflingu, ekki aðeins til að koma í veg fyrir sjúkdóma, heldur einnig til að bæta heilsu og líðan. Embættið ákvað að halda þessa ráðstefnu um jákvæða menntun vegna áhuga frá skólasamfélaginu og teikna á lofti um verri líðan barna og ungmenna. Kenna þarf börnum að takast á við mótlæti sem hluta af lífinu og mikilvægt er að horfa til styrkleika nemenda og hvað reynist þeim vel. Til að þessar áherslur fái meiri stuðning er mikilvægt að skólar verði metnir út frá styrkleikum barna og því hvort þau nái að blómstra.

Eftir hádegi var boðið upp á vinnustofur þar sem kynnt voru ýmis verkfæri jákvæðrar menntunar sem nýta má í skólastarfi. Mette Marie Ledertoug frá Árósarháskóla var með vinnustofu um baráttuna gegn leiða og aðra um styrkleikamiðaða kennslu. Elín M. Kristinsdóttir frá Grunnskólanum í Borgarnesi kynnti velferðarkennslu sem hún hefur verið með og þá aðstöðu sem þau hafa skapað fyrir nemendur í skólanum. Guðrún Alda Harðardóttir, frá leikskólanum Aðalþingi fjallaði svo um valdeflingu barna og valdeflandi námsumhverfi í leikskóla. Auk þeirra voru þau Hans Henrik Knoop, Maggie Fallon og Bryndís Jóna Jónsdóttir með vinnustofur þar sem farið var dýpra í það efni sem þau kynntu í fyrirlestrum fyrir hádegi.

Fjallað var um ráðstefnuna í fjölmiðlum eins og sjá má hér að neðan.

Núvitund í skólastarfi hefur jákvæð áhrif
Bæta þurfi líðan skólabarna

Upptaka frá erindunum fyrir hádegi er aðgengileg á vefnum.

Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri áhrifaþátta heilbrigðis
Ingibjörg Guðmundsdóttir, verkefnastjóri Heilsueflandi grunnskóla
Jenný Ingudóttir
, verkefnastjóri Heilsueflandi leikskóla
Sigríður Kristín Hrafnkelsdóttir
, verkefnastjóri Heilsueflandi framhaldsskóla