12. apríl 2018
12. apríl 2018
Vel heppnað málþing um Heimsmarkmið SÞ og Heilsueflandi samfélag
Málþingið Hamingja, heilsa og vellíðan með heimsmarkmiðunum var haldið í tilefni alþjóðlega hamingjudagsins.
Málþingið Hamingja, heilsa og vellíðan með heimsmarkmiðunum var haldið í tilefni alþjóðlega hamingjudagsins þann 20. mars síðastliðinn. Meginviðfangsefni málþingsins var Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna til ársins 2030 og hvernig þau samræmast áherslum Heilsueflandi samfélags um vellíðan fyrir alla.
Málþingið hófst með fróðlegu og skemmtilegu ávarpi frú Elizu Reid forsetafrúar, verndara Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og í framhaldinu kynnti framkvæmastjóri félagsins, Vera Knútsdóttir, Heimsmarkmiðin og forsögu þeirra. Ásta Bjarnadóttir frá verkefnisstjórn Stjórnarráðsins um Heimsmarkmiðin, fjallaði m.a. um vinnu stjórnvalda að Heimsmarkmiðunum og nefndi dæmi um hversu auðvelt er að tengja hvert og eitt heimsmarkmið við helstu áhrifaþætti heilbrigðis.
Birgir Jakobsson, þáverandi landlæknir, sagði frá Heilsueflandi samfélagi og tengdi starfið m.a. við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, sem sýnir hvernig Heimsmarkmið nr. 3, Heilsa og vellíðan, tengist hinum markmiðunum 16.
Heilsueflandi samfélag styður ríki og sveitarfélög í að vinna markvisst að Heimsmarkmiðunum
Áhugavert var að heyra dæmi um starf Heilsueflandi sveitarfélaga og hvernig fulltrúar þeirra sjá tengingu við Heimsmarkmiðin. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði frá heilsueflingarstarfi Reykjavíkurborgar, Ellert Örn Erlingsson deildarstjóri kynnti starf Akureyrarbæjar og Hulda Sólveig Jóhannsdóttir kynnti, fyrir hönd stýrihóps Heilsueflandi samfélags í Hafnarfirði, starf bæjarins.
Íslendingar eru fjórða hamingjusamasta þjóð heims
Erindi Dóru Guðrúnar Guðmundsdóttur, sviðsstjóra hjá Embætti landlæknis, vakti nokkra athygli en hún kynnti nýjar niðurstöður frá embættinu um hamingju Íslendinga. Í máli hennar kom m.a. fram að Íslendingar eru fjórða hamingjusamasta þjóð heims og fylgja þar fast á eftir nágrönnum okkar í Danmörku, Noregi og Finnlandi. Meðalhamingja Íslendinga árið 2017 var 7,5 á kvarðanum 1-10 þar sem 1 er mjög óhamingjusöm/-samur og 10 er mjög hamingjusöm/-samur. Þegar hamingja er skoðuð eftir stærstu sveitarfélögum kemur í ljós að munurinn er lítill.
Leggja áherslu á að skoða hvað aukin vellíðan gefur okkur
Tveir erlendir fyrirlesarar voru með erindi á málþinginu. Dr. Kai Ruggeri, sem starfar við Columbia háskóla Mailman School of Public Health og sálfræðideild Cambridge háskóla, fjallaði m.a. um hversu langt við erum komin í því að gera heilsu og vellíðan að markmiði í stefnu stjórnvalda. Fredrik Lindencrona frá sambandi sænskra sveitarfélaga fjallaði um geðheilbrigðismál á vettvangi sveitarfélaga og hvernig Heimsmarkmiðin nýtast við innleiðingu aðgerða á því sviði.
Í lokin stýrði Björg Magnúsdóttir, fjölmiðlakona hjá RÚV, líflegum pallborðsumræðum.
Fundarstjóri var Þröstur Freyr Gylfason, formaður Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Málþingið var samstarfsverkefni Embættis landlæknis, Forsætisráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og Endurmenntunar Háskóla Íslands.
HÉR má skoða upptöku frá málþinginu.