24. ágúst 2021
24. ágúst 2021
Varað við innvortis notkun Soolantra krems (ivermektín)
Að gefnu tilefni árétta Lyfjastofnun og embætti landlæknis að lyfið Soolantra (ivermektín) 10 mg/g krem er einungis ætlað til notkunar útvortis á húð til meðferðar við bólum og þrymlum sem fylgja húðsjúkdómnum rósroða.
Sameiginleg yfirlýsing Lyfjastofnunar og embættis landlæknis
Að gefnu tilefni árétta Lyfjastofnun og embætti landlæknis að lyfið Soolantra (ivermektín) 10 mg/g krem er einungis ætlað til notkunar útvortis á húð til meðferðar við bólum og þrymlum sem fylgja húðsjúkdómnum rósroða.
Ekki ætlað til inntöku
Mikilvægt er að lyfið sé eingöngu notað á andlitshúð. Ekki á að nota lyfið á aðra líkamshluta, einkum raka líkamshluta, t.d. augu, munn eða slímhúðir. Lyfið er alls ekki ætlað til inntöku. Forðast skal að kremið berist á augnlok, varir eða slímhúðir, svo sem í nefi, munni, augum eða í meltingarvegi. Ef kremið berst fyrir slysni á slímhúð sbr. framangreint skal þvo svæðið tafarlaust með miklu vatni.
Hætta á aukaverkunum getur aukist með notkun stærri skammta lyfja eða ef lyfjaform ætluð til meðhöndlunar á húð eru tekinn um munn þar sem hjálparefni og virka efnið geta valdið ófyrirséðum auka- eða milliverkunum.
Bent er á mikilvægi þess að fylgja notkunarleiðbeiningum lyfsins eins og þær eru settar fram í fylgiseðli til þess að tryggja sem besta virkni lyfsins.
Lyfjastofnun og embætti landlæknis hafa áreiðanlegar upplýsingar um að sjúklingar með COVID-19 hafi tekið lyfið um munn og rökstuddan grun um að það hafi haft alvarlegar aukaverkanir í för með sér. Aukaverkanir sem geta hlotist af inntöku kremsins eða ofskömmtun ivermektíns geta verið: útbrot, bjúgur, höfuðverkur, sundl, þróttleysi, ógleði, uppköst og niðurgangur. Fleiri aukaverkanir sem tilkynnt hefur verið um eru: krampar, ósamhæfðar vöðvahreyfingar, mæði, kviðverkir, náladofi og ofsakláði.
Tímabundin ráðstöfun: Ávísun lyfsins bundin við sérfræðinga í húðsjúkdómum
Til að tryggja sem best öryggi lyfjanotenda hefur Lyfjastofnun ákveðið að Z-merkja lyfið og þar með takmarka ávísun þess, a.m.k. tímabundið, við sérfræðinga í húðsjúkdómum.
Mikilvægt að tilkynna aukaverkanir
Minnt er á að tilkynna grun um aukaverkanir til Lyfjastofnunar þar með talið aukaverkanir vegna rangrar notkunar lyfs og notkunar án samþykktrar ábendingar.
Nánari upplýsingar veitir Lyfjastofnun í netfanginu samskipti@lyfjastofnun.is