Fara beint í efnið

9. september 2019

Upplýsingar um veikindi vegna rafrettu-notkunar í Bandaríkjunum

Embætti landlæknis fylgist með faraldri alvarlegra lungnasjúkdóma í Bandaríkjunum og sem virðist tengdur notkun á rafrettum og tengdum vörum. Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá heilbrigðisyfirvöldum í Bandaríkjunum hafa rúmlega 450 manns veikst. Fimm dauðsföll sem rekja má til sjúkdómsins hafa verið staðfest í jafn mörgum ríkjum.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Embætti landlæknis fylgist með faraldri alvarlegra lungnasjúkdóma í Bandaríkjunum og sem virðist tengdur notkun á rafrettum og tengdum vörum. Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá heilbrigðisyfirvöldum í Bandaríkjunum hafa rúmlega 450 manns veikst. Fimm dauðsföll sem rekja má til sjúkdómsins hafa verið staðfest í jafn mörgum ríkjum.

Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Miðstöð sjúkdómavarna og forvarna í Bandaríkjunum (CDC) er ekkert sem gefur til kynna á þessari stundu að um smitsjúkdóm sé að ræða. Þannig eru lungnaveikindin rakin til áhrifa af efnafræðilegum toga.

Flestir sjúklinga lýsa einkennum sem dæmigerð eru fyrir veikindi í öndunarfærum, svo sem hósta, mæði og verk fyrir brjósti. Aðrir hafa jafnframt fundið fyrir einkennum í meltingarvegi, líkt og ógleði, uppköstum og niðurgangi. Önnur einkenni á borð við þreytu, hita og þyngdartap hafa jafnframt verið algeng meðal þeirra sem veikst hafa.

Allir þeir sem hafa veikst hafa notað rafrettur. Enn er ekki vitað hvort að veikindin tengjast tilteknum rafrettum eða efnum sem notuð eru í þær. Hins vegar eru vísbendingar um að stór hluti þeirra sem veikst hafa hafi notað rafrettu-vökva sem innihélt vímuefnið THC (tetrahydrocannabinol) eða CBD (cannabidiol) en svo virðist sem að veikindin séu ekki einungis bundin við það.

Vel er fylgst með málinu á lungnadeild Landspítala en þar eru sjúklingar spurðir sérstaklega út í notkun á rafrettum. Enn sem komið er hefur ekkert tilfelli af sama toga og í Bandaríkjunum verið tilkynnt hér á landi.

Embætti landlæknis minnir á að börn og ungmenni sem og barnshafandi konur eigi aldrei að nota rafrettur og tengdar vörur. Það er áhyggjuefni að notkun á rafrettum hefur mjög færst í vöxt meðal íslenskra ungmenna síðustu árin. Umræðunni um rafrettur á að skipta í tvennt, annarsvegar sem leið til að aðstoða fólk við að hætta að reykja og hinsvegar að börn og ungmenni sem ekki hafa reykt nota rafrettur í síauknum mæli. Þessi aukna notkun ungmenna veldur áhyggjum þar sem ekki er vitað um áhrif hennar á heilsu til lengri tíma og hvort hún muni leiða til annarrar tóbaksnotkunar. Í nýlegum rannsóknum hafa komið fram vísbendingar um að þeir sem nota rafrettur eru líklegri en aðrir til að byrja að nota tóbak. Því er mikil þörf á rannsóknum á langtíma áhrifum rafretta, bæði hvað varðar bein áhrif á heilsu fólks og möguleg tengsl þeirra við tóbaksnotkun.

Þegar rafrettur komu fyrst á markað þóttu þær jákvæður valkostur fyrir þá sem vildu venja sig af sígarettureykingum og eiga að vera skárri en hefðbundnar tóbaksreykingar. Þeir sem nota rafrettur eru hvattir til að kaupa tæki og efni einungis af viðurkenndum söluaðilum. Landlæknir hvetur þá sem nota rafrettur og finna fyrir einkennum eins og tilgreind eru hér að ofan, til að leita sér læknisaðstoðar. Jafnframt eru læknar hvattir til að vera upplýstir um þessi einkenni og að fá upplýsingar um rafrettu-notkun sjúklinga hafi þeir einkenni sem lýst var hér að ofan.

Lög um rafrettur tóku gildi  1. mars síðastliðinn. Markmið þeirra er að tryggja gæði og öryggi rafrettna og áfyllinga fyrir þær. Neytendastofa fer með markaðseftirlit með rafrettum og áfyllingum. Heildaráhrif laga um rafrettur eru ekki enn komin fram, en landlæknir mun fylgjast náið með áhrifum þeirra. Nánar má lesa um lög um rafrettur á vef Neytendastofu. Lista Neytendastofu um samþykktar rafrettur og áfyllingar er að finna hér.

Ítarlegri upplýsingar faraldurinn í Bandaríkjunum má finna á vefsíðu FDA og CDC. Grein bandarískra vísindamanna um faraldurinn í New England Journal of Medicine.

landlæknir