Fara beint í efnið

19. nóvember 2020

Upplýsingar um bóluefni gegn COVID-19

Undanfarið hafa birst fréttir í íslenskum fréttamiðlum um stöðuna á opinberum innkaupum á bóluefnum gegn COVID-19 og um undirbúning á framkvæmd bólusetningarinnar þegar til hennar kemur.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Undanfarið hafa birst fréttir í íslenskum fréttamiðlum um stöðuna á opinberum innkaupum á bóluefnum gegn COVID-19 og um undirbúning á framkvæmd bólusetningarinnar þegar til hennar kemur.

Fyrir liggur að kaup Íslands á bóluefnum gegn COVID-19 munu fara fram á grundvelli samninga Evrópusambandsins við lyfjaframleiðendur. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur nú þegar undirritað samninga við fjóra framleiðendur, þ.e. Astra-Zeneca, Janssen, Sanofi/GSK og Pfizer/BioNTech og eru samningar við fleiri framleiðendur í burðarliðnum. Svíþjóð hefur tekið að sér það hlutverk að hafa milligöngu um að framselja Íslendingum bóluefni á grundvelli samninga Evrópusambandsins.

Á þessari stundu er ekki ljóst hversu marga skammta af bóluefni Ísland mun kaupa eða frá hvaða framleiðendur þeir verða keyptir. Hins vegar en stefnt að því að kaupa bóluefni fyrir a.m.k. 70% þjóðarinnar.

Tveir bóluefnaframleiðendur hafa undanfarið birt fréttir af góðum árangri sinna bóluefna en rétt er að árétta að öll bóluefnin munu þurfa samþykki og leyfi frá Evrópsku lyfjastofnuninni (EMA) áður en almenn notkun hefst.

Á þessari stundu er því ekki ljóst hvenær almenn dreifing bóluefna hefst og því síður hversu hratt einstaka þjóðir munu fá það magn sem áætlað er að kaupa. Það er því ótímabært að tala um hvenær bólusetning hefst hér á landi þó að vonir séu bundnar við að hún geti hafist á fyrri hluta næsta árs.

Undirbúningur að bólusetningu er hafinn undir stjórn sóttvarnalæknis og vonast er til að honum ljúki fyrir lok árs 2020. Unnið er m.a. að forgangsröðun hópa í bólusetninguna, dreifingu bóluefnanna og skráningu hinna bólusettu.

Nánari upplýsingar um bóluefnin og bólusetningu gegn COVID-19 verða birtar strax og nánari fréttir berast.

Sóttvarnalæknir