Fara beint í efnið

23. apríl 2019

Undirritaður samstarfssamningur um þróun á rafrænni samskiptalausn fyrir sjúklinga í krabbameinsmeðferð á Landspítala

Samstarfssamningur Landspítala, Embættis landlæknis, Krabbameinsfélags Íslands og Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins um þróun á rafrænni samskiptalausn fyrir sjúklinga í krabbameinsmeðferð á Landspítala var undirritaður þann 15. apríl 2019.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Samstarfssamningur Landspítala, Embættis landlæknis, Krabbameinsfélags Íslands og Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins um þróun á rafrænni samskiptalausn fyrir sjúklinga í krabbameinsmeðferð á Landspítala var undirritaður þann 15. apríl 2019. Samninginn undirrituðu fulltrúar þessara félaga og stofnana; Valgerður Sigurðardóttir, Alma K. Möller, Páll Matthíasson og Árni Einarsson.

Tilgangurinn er að bjóða sjúklingum og aðstandendum þeirra þjónustu á öruggu vefsvæði til þess að styðja þá í veikindaferlinu. Megin markmiðin eru að auka öryggi sjúklinga, auka þátttöku þeirra í eigin meðferð og bæta aðgengi að upplýsingum og heilbrigðisstarfsfólki. Samskiptalausnin gefur einnig meðferðarteymi sjúklingsins yfirlit yfir líðan hans og þarfir.

Samskiptalausnin verður útfærð í Heilsuveru og í rafrænum sjúkraskrárkerfum Landspítala og er í takt við sýn spítalans um þátttöku sjúklinga og aðstandenda í meðferð.

Rannsóknir hafa sýnt fram á jákvæðan árangur sambærilegra verkefna, bæði fyrir sjúklinginn og fyrir heilbrigðiskerfið. Sambærilegar lausnir hafa verið þróaðar í rannsóknarumhverfi og sérlausnum víða um heim en ekki í þeirri mynd sem verið er að vinna að hér, þar sem til stendur að vinna lausnina í takt við kerfi sem eru í notkun á Íslandi nú þegar.

Upphafleg þarfagreining þessa verkefnis, sem var fyrst kynnt árið 2015, var unnin af Nönnu Friðriksdóttur, sérfræðingi í krabbameinshjúkrun og Lilju Þorsteinsdóttur hjúkrunarfræðingi og verkefnisstjóra.

Í samstarfi við Embætti landlæknis, og með stuðningi Krabbameinsfélags Íslands og Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins hafa verið stýrihópur og verkefnishópur til þess að hrinda verkefninu í framkvæmd. Verkefnisstjóri er Kristín Skúladóttir hjúkrunarfræðingur.