Fara beint í efnið

31. mars 2021

Undanþágur frá dvöl í sóttvarnahúsi eftir komu frá landi með smittíðni COVID-19 yfir 500 per 100.000 íbúa eða óþekkta smittíðni

Skv. nýrri reglugerð heilbrigðisráðuneytis um sóttvarnaraðgerðir er ferðamönnum sem koma frá eða hafa dvalið í meira en sólarhring á síðastliðnum 14 dögum á svæði þar sem 14 daga nýgengi smita á hverja 100.000 íbúa er yfir 500

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Skv. reglugerð nr. 355/2021 um sóttvarnaraðgerðir er ferðamönnum sem koma frá eða hafa dvalið í meira en sólarhring á síðastliðnum 14 dögum á svæði þar sem 14 daga nýgengi smita á hverja 100.000 íbúa er yfir 500 eða fullnægjandi upplýsingar um svæðið liggja ekki fyrir (dökkrauð eða grá svæði samkvæmt upplýsingum frá Sóttvarnastofnun Evrópu) skylt að dvelja í sóttkví eða einangrun í sóttvarnahúsi. Sóttvarnalæknir hefur skv. 9. og 10. greinum reglugerðar heimild til að veita með ákveðnum takmörkunum undanþágur frá sóttvarnaráðstöfunum vegna ferða yfir landamæri.

Frá 1. apríl koma eftirfarandi aðilar til greina til undanþágu frá dvöl í sóttvarnahúsi þótt ferðast hafi verið um svæði sem hafa óþekkta smittíðni eða smittíðni yfir 500 á hverja 100.000 íbúa innan 14 daga fyrir komu til Íslands:

  • Einstaklingar sem hafa fengið undanþágu sbr. 9. grein reglugerðarinnar til að sinna vinnu í sóttkví eftir umsókn til sóttvarnalæknis og hafa um það staðfestingu frá sóttvarnalækni. Þetta á einnig við þótt umsókn hafi verið afgreidd áður en reglugerð var birt 31. mars þar sem ekki er tekin fram undanþága frá sóttvarnahúsi. Undanþágur gefnar út 31. mars eða síðar skulu taka fram að einnig sé veitt undanþága frá dvöl í sóttvarnahúsi þegar heimild er veitt til að stunda vinnu í sóttkví.

  • Aðilar sem sóttvarnalæknir hefur heimild til að veita undanþágu frá sóttkví vegna vinnuferða erlendis skv. 10. gr. reglugerðarinnar (áhafnir sem sinna flutningum á vöru og þjónustu, heilbrigðisstarfsmenn og löggæslustarfsmenn). Þessir aðilar þurfa að hafa staðfestingu frá sóttvarnalækni um undanþágu frá dvöl í sóttvarnahúsi og geta sótt um hana til svl@landlaeknir.is með milligöngu vinnuveitanda hérlendis ef við á.

Aðrir geta ekki sótt um slíka undanþágu að svo stöddu.

Sóttvarnalæknir