Fara beint í efnið

9. apríl 2021

Um áframhaldandi notkun Astra Zeneca COVID-19 bóluefnis (Vaxzevria) á Íslandi

Sóttvarnalæknir hefur fengið álit sérfræðinga í blóðstorkuvandamálum á Landspítala varðandi hópa sem frekar ætti að bólusetja með mRNA bóluefnum (t.d. Moderna) en með Vaxzevria ef kostur er.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Sóttvarnalæknir hefur fengið álit sérfræðinga í blóðstorkuvandamálum á Landspítala varðandi hópa sem frekar ætti að bólusetja með mRNA bóluefnum (t.d. Moderna) en með Vaxzevria ef kostur er. Athugið að ekki er um eiginlegar frábendingar skv. Lyfjastofnun Evrópu að ræða gegn notkun Vaxzevria og ekki þarf að tilkynna til Lyfjastofnunar þótt einstaklingar sem þetta á við hafa fengið eða fá hér eftir bólusetningu með Vaxzevria. Einstaklingum í eftirfarandi hópum verður boðið annað bóluefni:

  • Konur undir 55 ára (vegna aukinnar grunnáhættu yngri kvenna á blóðtappamyndun í heilaæðum umfram karla)

  • Einstaklingar með fyrri sögu um blóðtappa í bláæðum án þekktra áhættuþátta (sjálfsprottna bláæðasega), hvort sem þeir eru á blóðþynnandi lyfjum eða ekki

  • Einstaklingar með undirliggjandi mikið aukna hættu á bláæðasegum s.s. sjúklingar

1. með beinmergsfrumuaukningu (e. myeloproliferative syndrome):

  • langvinnt mergfrumuhvítblæði (e. chronic myeloid leukaemia; chronic neutrophilic leukaemia og myeloproliferative disease, unspecified; chronic eosinophilic leukaemia)

  • frumkomið rauðkornablæði (e. polycythaemia vera)

  • sjálfvakið blóðflagnablæði (e. essential thrombocythaemia)

  • frumkomin beinmergstrefjun (e. primary myelofibrosis) – þ.m.t. sjúklingar með JAK2 stökkbreytingar

2. með PNH (e. primary nocturnal haemoglobinuria; köstótt næturblóðrauðamiga)3. með lupus anticoagulant/antiphospholipid syndrome, þ.e. sjúklingar með sjálfsmótefni sem auka hættu á bláæðasegum4. á lenalidomid meðferð við beinmergsmeinum

Athugið að meðal þessara greininga eru sjúkdómar sem eru einnig áhættuþættir fyrir alvarlegri COVID sýkingu en stór hluti þessara einstaklinga tilheyrir bólusetningarhópi 10.

Einstaklingar sem þetta á við um verða merktir sérstaklega í bólusetningakerfinu og ættu að fá boð í mRNA bólusetningu en ekki Vaxzevria þegar kemur að bólusetningu þeirra. Stefnt er að því að ljúka merkingunni fyrir lok apríl. Þeir sem þetta á við um sem hafa nú þegar afþakkað boð í bólusetningu eða ekki mætt eiga þá von á að fá nýtt boð eftir það og þá í mRNA bóluefni. Ef einhver telur sig eftir það ranglega hafa fengið boð í Vaxzevria sem tilheyrir hópunum hér að ofan er rétt að hafa samband við heilsugæslu sem getur staðfest sjúkrasöguna og mega umsjónarmenn lista á því heilsugæslusvæði þá merkja viðkomandi til að hægt sé að boða aftur á réttum degi þegar viðeigandi bóluefni er í boði.

Sóttvarnalæknir