Fara beint í efnið

7. nóvember 2018

Um 33.000 einstaklingar látast árlega á Evrópska efnahagssvæðinu af völdum sýklalyfjaónæmra baktería

Niðurstaða nýrrar rannsóknar á vegum Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins (ECDC) sem birtist í vísindatímaritinu Lancet 5.11.2018 leiðir í ljós að árlega deyja um 33.000 einstaklingar af völdum sýklalyfjaónæmra baktería á Evrópska efnahagssvæðinu

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Niðurstaða nýrrar rannsóknar á vegum Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins (ECDC) sem birtist í vísindatímaritinu Lancet 5.11.2018 leiðir í ljós að árlega deyja um 33.000 einstaklingar af völdum sýklalyfjaónæmra baktería á Evrópska efnahagssvæðinu og er sjúkdómsbyrðin af völdum þessara baktería jafn mikil og sjúkdómsbyrði inflúensu, berkla og HIV/Alnæmis samanlagt. 

Um 75% sýkinganna tengjast heilbrigðisþjónustu einstakra landa samkvæmt þessari rannsókn sem sýnir hversu mikilvægar sýkingavarnir innan heilbrigðisstofnana eru til að koma í veg fyrir útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería. Niðurstaða rannsóknarinnar sýnir einnig að sjúkdómsbyrðin er mjög breytileg milli landa en mest var hún á Ítalíu og í Grikklandi en langminnst á Íslandi.

Niðurstöður ofangreindrar rannsóknar sýna glöggt að sýklalyfjaónæmi er verulegt heilsufarslegt vandamál í Evrópu (sem og annars staðar í heiminum), sem nauðsynlegt er að fást við með kerfisbundnum hætti. Þó staðan sé vissulega góð á Íslandi er mikilvægt að landsmenn séu meðvitaðir um þá hættu sem steðjar að og hversu mikilvægt er að viðhafa ákveðnar aðgerðir hér á landi til að viðhalda þeirri stöðu. Með því að draga úr útbreiðslu fjölónæmra baktería getum við haft áhrif á batahorfur sjúklinga með smitsjúkdóma og kostnað heilbrigðiskerfisins.

Starfshópur heilbrigðisráðherra skilaði tillögum um aðgerðir til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á árinu 2017 sem vonir eru bundnar við að muni hafa marktæk áhrif til að hægja á frekari útbreiðslu sýklalyfjaónæmis hér á landi. Flestar tillagnanna hafa nú þegar verið innleiddar en enn á eftir að hrinda nokkrum þeirra í framkvæmd. Vonandi verður það gert á næstu misserum.

Sjá nánar:

Sóttvarnalæknir