1. febrúar 2018
1. febrúar 2018
Tillögur starfshóps um aðgerðir gegn kynsjúkdómum
Starfshópur sem skipaður var af fyrrverandi heilbrigðisráðherra hefur nú skilað tillögum um aðgerðir til að stemma stigu við vaxandi útbreiðslu kynsjúkdóma hér á landi.
Starfshópur sem skipaður var af fyrrverandi heilbrigðisráðherra hefur nú skilað tillögum um aðgerðir til að stemma stigu við vakandi útbreiðslu kynsjúkdóma hér á landi.
Lagt er til að stjórnvöld marki sér opinbera stefnu og setji skilgreind markmið um árlega fækkun í hópi þeirra sem greinast með kynsjúkdóma. Lagt er til að fækkunin nemi a.m.k. 10% á ári. Aðrar tillögur lúta að öflun og miðlun upplýsinga um faraldsfræði kynsjúkdóma, um samræmingu verklags við greiningu og meðferð þeirra, aðgengi að greiningarprófum og notkun þeirra, og skimun og greiningu kynsjúkdóma. Auk þessa er lagt til að komið verða á nálaskiptaprógrammi fyrir fíkniefnaneytendur sem sprauta vímuefnum í æð, dreifing smokka verði gjaldfrjáls til tiltekinna hópa, fræðsla í grunn- og framhaldsskólum verði efld, og tillögur um fræðslu fyrir heilbrigðisstarfsfólk, áhættuhópa og almenning. Loks er fjallað um notkun fyrirbyggjandi lyfja gegn HIV og niðurgreiðslu þeirra.
Í starfshópnum áttu sæti Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, Már Kristjánsson yfirlæknir smitsjúkdómalækninga á Landspítala, Baldur Tumi Baldursson yfirlæknir húð- og kynsjúkdómalækninga á Landspítala, Elísabet Reykdal Jóhannesdóttir húð- og kynsjúkdómalæknir, fulltrúi sóttvarnaráðs og Ragnhildur Sif Hafstein fulltrúi velferðarráðuneytisins.
Nánar: Kynsjúkdómar á Íslandi - greinargerð og tillögur um aðgerðir (PDF)
Sóttvarnalæknir