Fara beint í efnið

26. júlí 2018

Þátttaka í almennum bólusetningum á Íslandi ekki viðunandi

Sóttvarnalæknir hefur gefið út skýrslu um þátttöku í almennum bólusetningum á Íslandi á árinu 2017. Í skýrslunni kemur fram að þátttaka á árinu 2017 var svipuð og á árinu 2016, þar sem þátttaka yngstu árganganna í bólusetningum er lakari en áður hefur verið.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Sóttvarnalæknir hefur gefið út skýrslu um þátttöku í almennum bólusetningum á Íslandi á árinu 2017 sem birt hefur verið á vefsíðu Embættis landlæknis. Eins og fram kemur í skýrslunni þá var þátttaka á árinu 2017 svipuð og á árinu 2016, þar sem þátttaka yngstu árganganna í bólusetningum er lakari en áður hefur verið.

Ef þátttaka minnkar enn frekar má búast við að hér á landi fari að sjást sjúkdómar sem ekki hafa sést um árabil. Sérstaklega eru mislingar áhyggjuefni en þeir hafa nú geisað af krafti víða í Evrópu um nokkurra ára skeið. Mikil flugumferð um Ísland gerir það að verkum að sóttvarnalæknir fær reglulega spurnir af því að einstaklingur með smitandi mislinga hafi verið í flugvél með viðkomu á Íslandi. Meðgöngutími sjúkdómsins er um 10-14 dagar en getur verið allt að 3 vikur og með dvínandi þátttöku yngstu árganganna í bólusetningum er hætt við að faraldur geti komið upp ef smit berst inn á leikskóla hér á landi.

Höfnun bólusetninga er fremur sjaldgæf hér á landi. Miklu algengara er að skoðun í ung- og smábarnavernd falli niður af óljósum orsökum. Á undanförnu ári hefur verið lagt í vinnu við að auðvelda heilsugæslustöðvum að fylgjast með stöðu mála hjá þeim börnum sem eru skráð á stöðina og gefur það tækifæri til að kalla inn börn sem ekki hafa mætt í skoðun. Frekari úrbætur eru í undirbúningi til að auðvelda skráningu og fleira.

Fyrsti fræðslufundur sóttvarnalæknis og heilsugæslunnar um almennar bólusetningar á Íslandi var haldinn 1. nóvember sl. og fór þátttaka fram úr öllum áætlunum. Fyrirhugað er að halda slíkan fund árlega og verður hann auglýstur síðar.

Sóttvarnalæknir