18. janúar 2021
18. janúar 2021
Þátttaka í almennum bólusetningum á Íslandi 2019 áfram góð
Sóttvarnalæknir hefur gefið út skýrslu um þátttöku í almennum bólusetningum á Íslandi á árinu 2019 sem birt hefur verið á vef embættis landlæknis.
Sóttvarnalæknir hefur gefið út skýrslu um þátttöku í almennum bólusetningum á Íslandi á árinu 2019 sem birt hefur verið á vef embættis landlæknis. Eins og fram kemur í skýrslunni þá var þátttaka í ung- og smábarnabólusetningum á árinu 2019 ágæt. Þátttaka er hvergi undir 90% fyrir 12 mánaða, 18 mánaða eða 4 ára bólusetningar, en því miður nær hún ekki 95% fyrir mislingabólusetningu 18 mánaða barna á landsvísu þrátt fyrir mislingafaraldur í byrjun ársins. Mikilvægt er að skólahjúkrunarfræðingar og heilsugæslur, sérstaklega á þéttbýlustu svæðum landsins, fylgist áfram vel með þátttöku barna sem skráð eru hjá þeim og bjóði skoðun og bólusetningu ef skoðun hefur fallið niður og fari yfir eldri bólusetningar barna sem flytjast til landsins. Huga þarf að leiðum til að boð skili sér með öruggari hætti en nú er til þeirra fjölskyldna sem ekki hafa náð fullum tökum á íslensku.
Heimsfaraldur COVID-19 hefur tafið útgáfu þessarar skýrslu vegna anna hjá sóttvarnalækni. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO hefur margoft lýst yfir áhyggjum af áhrifum faraldursins á grundvallarheilbrigðisþjónustu og bólusetningar. Síðar á þessu ári kemur út uppgjör fyrir bólusetningar ársins 2020 og verða áhrif faraldursins á framkvæmd bólusetninga á Íslandi þá rýnd.
Sóttvarnalæknir