Fara beint í efnið

1. apríl 2019

Starfsleyfi heilbrigðisstarfsmanna og réttindi til starfa

Töluverð umfjöllun hefur verið í Svíþjóð um að þar hafi verið starfandi í heilbrigðisþjónustu einstaklingar án tilskilins starfsleyfis eða með starfsleyfi á fölskum forsendum. Fréttastofa Ríkisútvarpsins greindi frá þessu í fréttum nú í vikunni.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Töluverð umfjöllun hefur verið í Svíþjóð um að þar hafi verið starfandi í heilbrigðisþjónustu einstaklingar án tilskilins starfsleyfis eða með starfsleyfi á fölskum forsendum. Fréttastofa Ríkisútvarpsins greindi frá þessu í fréttum nú í vikunni. Sjá frétt.

Samkvæmt lögum um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007 er það hlutverk landlæknis að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum. Þá veitir landlæknir starfsleyfi til einstaklinga sem uppfylla skilyrði laga og reglugerða til notkunar starfsheita löggiltra heilbrigðisstétta.

Hér á Íslandi hafa komið upp tilvik þar sem einstaklingar hafa verið ráðnir til starfa sem heilbrigðisstarfsmenn án þess að hafa til þess leyfi frá landlækni. Nær undantekningarlaust er það þannig að þeir hafa tilskylda menntun en ekki sótt um starfsleyfi til landlæknis af einhverjum ástæðum og þeir sem ráða þá til starfa krefja þá ekki um staðfestingu á starfsleyfi.

Embættið brýnir fyrir þeim sem ráða til sín heilbrigðisstarfsfólk að ganga úr skugga um strax við ráðningu hvort viðkomandi hafi leyfi til þess að starfa sem heilbrigðisstarfsmaður.

Hvað varðar þær upplýsingar í fréttinni að veitt hafi verið starfsleyfi til einstaklinga á fölskum forsendum þá mun Embætti landlæknis áfram vanda til verka þegar einstaklingum með menntun erlendis frá er veitt starfsleyfi eða þegar starfsleyfi frá öðru landi er staðfest. Ljóst er að aldrei er of varlega farið í þeim efnum.

Anna Björg Aradóttir, annabara@landlaeknir.is