11. maí 2021
11. maí 2021
Smitrakningarapp uppfært með Bluetooth-virkni
Smitrakningarapp embættis landlæknis og almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra (Rakning C-19) hefur verið uppfært og nýtir nú Bluetooth-virkni snjalltækja til að styðja við rakningu smita.
Smitrakningarapp embættis landlæknis og almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra (Rakning C-19) hefur verið uppfært og nýtir nú Bluetooth-virkni snjalltækja til að styðja við rakningu smita. Ítarlega verður fjallað um uppfærsluna á upplýsingafundi á morgun, miðvikudaginn 12. maí.
Þessi nýja útgáfa appsins gerir smitrakningarteymi almannavarnadeildar kleift að rekja hugsanleg smit þar sem tengsl milli aðila eru ekki þekkt og því erfiðara að rekja. Sem fyrr er engin afsláttur gefinn á vernd persónuupplýsinga og öryggi smáforritsins; áfram verða öll gögn vistuð á símtækinu sjálfu, ekki skýinu eða í gagnagrunni; áfram eru gögn aðeins geymd í 14 daga í tækinu; alfarið er notast við ópersónugreinanlegar og handahófskenndar gagnasendingar milli tækja.
Þróun appsins er á vegum embættis landlæknis í samvinnu við aðra hýsingar- og þróunaraðila. Öryggisúttekt var gerð á appinu og jafnframt var mat Persónuverndar fengið á virkni þess.
Hvernig virkar appið?
Rakning C-19 notar Bluetooth-merki símtækja til að reikna út fjarlægð milli tækja. Símarnir skiptast á ópersónugreinanlegum upplýsingum, eða svokölluðum lyklum, auk þess sem appið sækir reglulega upplýsingar um lykla sem hafa verið sendir frá öðrum tækjum. Þegar einstaklingur sýkist af COVID-19 og er með appið biður rakningarteymi almannavarnadeildar viðkomandi að senda lykla úr appinu. Ef sími sækir upplýsingar um lykil sem hann hefur séð áður fara útreikningar af stað sem meta líkur á útsetningu.
Ef símarnir hafa verið í minna en 2 metra fjarlægð í 15 mínútur kemur upp tilkynning um hugsanlega útsetningu. Þegar einstaklingur fær slíka tilkynningu getur viðkomandi fylgt leiðbeiningum í appinu um skráningu í smitgát og jafnframt fengið boð í sýnatöku.
Skráning í smitgát er ákvörðun hvers og eins notanda. Tilgangurinn er fyrst og fremst að gera hverjum og einum kleift að grípa til ráðstafana, takmarka samneyti við aðra, huga enn betur að einstaklingsbundnum sóttvörnum og fá sjálfkrafa boð í sýnatöku.
Hver er ávinningurinn?
Smitrakning hefur skipt sköpum í viðureign okkar við heimsfaraldur COVID-19. Á þessum tímapunkti, þegar margir hafa fengið bólusetningu og fyrirsjáanlegt er að samfélag okkar verði opnara og að meira verði um ferðalög hingað til lands, er einkar mikilvægt að smitrakning verði áfram skilvirk og árangursrík. Þær breytingar sem fyrirsjáanlegar eru, t.d. varðandi aðgerðir innanlands og á landamærum, munu gera smitrakningu flóknari. Ný útgáfa Rakning C-19 er liður í að auðvelda þá vinnu.
Nánar upplýsingar veitir Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, í netfanginu kjartanh@landlaeknir.is.
Alma D. Möller landlæknir
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir