Fara beint í efnið

28. september 2018

Skýrsla um sýklalyfjanotkun og algengi sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi hjá mönnum og dýrum 2017

Út er komin árleg skýrsla um sýklalyfjanotkun og algengi sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi hjá mönnum og dýrum á árinu 2017.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Út er komin árleg skýrsla um sýklalyfjanotkun og algengi sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi hjá mönnum og dýrum á árinu 2017. Skýrslan er samstarfsverkefni sóttvarnalæknis, sýklafræðideildar Landspítala, Matvælastofnunar og Lyfjastofnunar.

Í skýrslunni kemur fram að sýklalyfjanotkun hjá mönnum jókst um rúmlega 3% á árinu 2017 miðað við 2016 en sýklalyfjanotkun hjá dýrum var áfram ein sú minnsta hér á landi miðað við önnur Evrópulönd. Þetta veldur ákveðnum vonbrigðum því á sama tíma minnkaði sýklalyfjanotkun hjá mönnum á hinum Norðurlöndunum. Athygli vekur minnkandi notkun sýklalyfja hjá börnum yngri en 5 ára en hins vegar jókst notkunin hjá einstaklingum 65 ára og eldri.

Sýklalyfjaónæmi er áfram fremur lágt á Íslandi miðað við nágrannaþjóðirnar og var það að mestu óbreytt miðað við árið 2016.

Í apríl 2017 skilaði starfshópur heilbrigðisráðherra greinargerð um aðgerðir til að draga úr útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería á Íslandi. Starfshópurinn lagði til 10 tillögur sem nauðsynlegar væru í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi. Þar á meðal voru tillögur um hvernig hægt væri að draga úr sýklalyfjanotkun hjá mönnum og mælt með eftirliti á sýklalyfjaónæmum bakteríum í erlendum og innlendum matvælum.

Á árinu 2018 hófst vinna með læknum sem miðar að því að efla vitund lækna um bættar ávísanavenjur sýklalyfja sem vonandi mun leiða til minnkandi notkunar. Einnig var aukið eftirlit með sýklalyfjaónæmum bakteríum í matvælum og rannsóknir á eðli dreifingar sýklalyfjaónæmis efldar. Vonandi munu allir þessir þættir reynast gagnlegir í baráttunni við útbreiðslu sýklalyfjaónæmra baktería sem álitin er vera ein helsta heilbrigðisógn samtímans.

Sjá nánar:

Sóttvarnalæknir