15. janúar 2020
15. janúar 2020
Skýrsla starfshóps um geðrækt í skólum
Starfshópur á vegum embættis landlæknis, sem unnið hefur tillögur um innleiðingu geðræktarstarfs, forvarna og stuðnings við börn og ungmenni í skólastarfi, hefur skilað niðurstöðum sínum til heilbrigðisráðherra. Tillögur hópsins hafa einnig verið kynntar fyrir mennta- og menningarmálaráðherra og félags- og barnamálaráðherra.
Starfshópur á vegum embættis landlæknis, sem unnið hefur tillögur um innleiðingu geðræktarstarfs, forvarna og stuðnings við börn og ungmenni í skólastarfi, hefur skilað niðurstöðum sínum til heilbrigðisráðherra. Tillögur hópsins hafa einnig verið kynntar fyrir mennta- og menningarmálaráðherra og félags- og barnamálaráðherra.
Vinna starfshópsins er liður í geðheilbrigðisstefnu og aðgerðaáætlun stjórnvalda til ársins 2020, en í honum sátu fulltrúar frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Menntamálastofnun, Kennarasambandi Íslands, Heimili og skóla og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
Í vinnu sinni byggði starfshópurinn á stöðu þekkingar á geðrækt og þrepaskiptum stuðningi í skólastarfi (e. multi-tiered systems of support), reynslu annarra þjóða af innleiðingu geðræktarstarfs í skólum, fyrirliggjandi skýrslum og úttektum hér á landi og niðurstöðum nýrrar landskönnunar á geðrækt í íslenskum leik-, grunn- og framhaldsskólum.
Tillögur hópsins telja yfir 40 aðgerðir sem ná bæði til skólakerfisins og annarra kerfa sem sinna velferð barna og ungmenna. Þær hafa mikilvæga snertifleti við þá heildarendurskoðun á málefnum barna sem hafin er í samvinnu þvert á ráðuneyti.
Fyrirspurnum um vinnu hópsins skal beint til Sigrúnar Daníelsdóttur, verkefnastjóra geðræktar: sigrun@landlaeknir.is